Fara í efni

BSRB VARAR VIÐ ALDURSTENGINGU LÍFEYRISIÐGJALDA

Nánast án nokkurrar umræðu í verkalýðshreyfingunni virðast örfáir einstaklingar ætla að knýja í gegn grundvallarbreytingar á lífeyriskerfinu. Til stendur að tengja verðmæti iðgjalda aldri greiðandans þannig að iðgjöld sem greidd eru á unga aldri eru verðmætari en iðgjöld sem við greiðum þegar aldurinn færist yfir. Rökin eru þau að sjóðurinn hafi peningana lengur til ávöxtunar. En hvað þýðir þetta t.d. fyrir konur sem eru fjarri vinnumarkaði á fyrstu árum starfsævinnar vegna barneigna og hvað með langskólagengið fólk sem kemur seint inn á vinnumarkað?

Þessar hugmyndir þarf að ræða ítarlega innan samtaka launafólks áður en þeim er hrint í framkvæmd. LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins. Hann hefur ekki verið hafður með í ráðum í tengslum við þessar ráðagerðir sem ASÍ og SA hafa sett stimpil sinn á þó án þess að almenn umræða hafi farið fram um málið.

Nú skal ég ekkert útiloka að hvaða niðurstöðu ég kynni að komast eftir rækilega athugun. Við höfum þó tekið nokkra umræðufundi um þetta innan BSRB og eru margir þar fullir efasemda. Sjálfur er ég í þeim hópi. Mín skoðun er sú að þegar grundvallarbreytingar eru gerðar þá skuli það aðeins gert að mjög yfirveguðu ráði.

Mjög góða úttekt á þessu máli er að finna í blaði Sjúkraliðafélags Íslands og vísa ég til þess. Í blaðinu lýsi ég mínum viðhorfum nánar.

Sjá Sjúkraliðann á heimasíðu Sjúkraliðafélags Íslands