BSRB VERKFALLI LÝKUR - FYRIR 30 ÁRUM
30.10.2014
Hinn 4. október 1984 hófst verkfall opinberra starfsmanna innan BSRB og stóð það í 27 daga. Reyndar fjórum dögum betur hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem lögðu niður vinnu 1. október þar sem þeir fengu ekki greidd laun þann dag. Þetta átti eftir að draga dilk á eftir sér því forsvarsmenn einkarekinna útvarpsstöðva sem settar voru á laggirnar í verkfallinu kærðu okkur sem vorum þá í forsvari fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þeirri kæru - sem byggði á landráði ef ég man rétt - því við hefðum tekið sjálfan öryggisventilinn, Ríkisútvarpið, úr sambandi, fylgdi krafa um fangelsi. Ákæran orkaði meira en lítið tvímælis þótti okkur því alltaf pössuðum við upp á öryggishlutverkið en hún fór engu að síður alla leið í Hæstarétt að kröfu ríkissaksóknara! Þetta dómsmál er til marks um hörkuna í þessu verkfalli.
Í dag opnaði BSRB sýningu á ljósmyndum Helga Haukssonar frá verkfallinu 1984 en þær eru afbragðsgóðar. Ég hvet öll þau sem eiga minningar úr þessu verkfalli að skoða sýninguna á fyrstu hæð höfuðstöðva BSRB að Grettisgötu 89 í Reykjavík. Hún mun standa til áramóta. Þetta er einkar vel til fundið af hálfu BSRB.
Við opnun sýningarinnar var fjöldi gamalla félaga úr BSRB og var það mér mikið ánægjuefni að hitta þá af þessu skemmtilega tilefni.
Sjá frétt um sýningu: http://bsrb.is/um-bsrb/frettir/frett/2014/10/29/Ljosmyndasyning-30-ar-fra-verkfalli/