BSRB vill heilbrigðisþjónustu sem ekki mismunar fólki
Birtist í Mbl
Félagi minn í BSRB, Pétur Örn Sigurðsson, skrifar ágæta og málefnalega grein í Morgunblaðið á miðvikudag þar sem hann spyr um stefnu samtakanna í heilbrigðismálum. Tilefnið eru auglýsingar frá BSRB í útvarpi og sjónvarpi að undanförnu en í þeim er lagst gegn áformum um að taka örorkubætur, ellilífeyrisbætur og atvinnuleysisbætur úr tengslum við launaþróun í landinu en einnig er innritunargjöldum á sjúkrahús og gjaldtöku fyrir ferliverk mótmælt.
Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að koma til móts við kröfur okkar að því leyti að kjör atvinnulausra, öryrkja og ellilífeyrisþega verða ekki skert á næsta fjárlagaári um 600 milljónir eins og til stóð að gera. Á fundi formanna aðildarfélaga BSRB sama dag og ríkisstjórnin skýrði BSRB formlega frá ákvörðun sinni var samþykkt einróma ályktun um að með þessu væri mikilvægum áfanga náð. Jafnframt var bent á að eftir sem áður væri áformuð sú kerfisbreyting að taka bætur til fyrrnefndra hópa svo og til þeirra sem njóta barnabóta, húsnæðisbóta, að ógleymdum persónuafslættinum, úr sambandi við launa- og verðlagsþróun í landinu en þar með er horfið það skjól sem þessir hópar þó höfðu til verndar sínum kjörum.
Eftir standa innritunargjöldin
En víkjum að heilbrigðisþjónustunni og áformuðum innritunargjöldum á sjúkrahús og annarri gjaldtöku af sjúkum sem ríkisstjórnin neitar enn að falla frá.
Pétur Örn spyr hvort BSRB hafi sett fram „…stefnumótandi tillögur varðandi heilbrigðisþjónustu í landinu“ og hvernig BSRB vilji mæta vaxandi kostnaði í heilbrigðisþjónustunni í ljósi þess að sá málaflokkur sem spannar heilbrigðis- og tryggingamál sé fjárfrekur „…og líkur á því að áframhald verði í niðurskurði á þessum málaflokki á næstu árum, í því skyni að minnka fjárlagahallann.“
Greinarhöfundur bendir einnig á að ætla megi að eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu fari vaxandi og hafi verið til umræðu í þjóðfélaginu ýmsar hugmyndir til að mæta þessu svo sem með endurskipulagningu og aukinni hagræðingu í sjúkrahúsrekstri og forgangsröðun í þjónustu. Og í framhaldinu er spurt um afstöðu BSRB,hvort samtökin hafi til dæmis sett fram tillögur um stefnumótun í forgangsröðun á þjónustu við sjúklinga.
Frumkvæði BSRB
Á undanförnum árum hefur BSRB lagt mjög ríka áherslu á umræðu um heilbrigðismál og skipulagningu heilbrigðisþjónustunnar. BSRB hefur margoft ályktað um þessi efni, tekið þátt í tillögusmíð og starfshópum á vegum stjórnvalda, efnt til funda og málþinga. Þannig má heita að samtökin hafi riðið á vaðið í opinberri umræðu snemma í haust með málstofu um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, með þátttöku starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar og stjórnmálamanna, þar á meðal heilbrigðisráðherra. Eins og lesendur BSRB tíðinda þekkja hefur þar reglulega verið rækilega um þessi mál fjallað af hálfu félagsmanna, starfsnefnda og starfsmanna BSRB, nú síðast í ítarlegri úttekt Rannveigar Sigurðardóttur hagfræðings en þar er einmitt farið í saumana á þeim atriðum sem Pétur Örn Sigurðsson fjallar um í grein sinni. Í stuttu máli tel ég óhætt að fullyrða að um nokkurra ára skeið hefur BSRB lagt höfuðkapp á að taka á uppbyggilegan hátt þátt í stefnumótun um heilbrigðisþjónustuna.
Sofum ekki á verðinum
Sú stefna samtakanna að hafna því að krefja sjúklinga um innritunargjöld á sjúkrahús og leggja aukin þjónustugjöld á sjúklinga hefur verið mótuð á þingum bandalagsins, á bandalagsráðstefnum og í stjórn samtakanna sem hefur haft það verkefni með höndum að koma stefnunni á framfæri. Það á einnig við um þær auglýsingar sem að undanförnu hafa hljómað á öldum ljósvakans.
Pétur Örn vill vita hvað auglýsingaherferðin hefði kostað en peningana „…hefði ef til vill mátt nýta á annan hátt fyrir þann hóp félagsmanna BSRB sem hvað verst hefur orðið úti í efnahagssamdrættinum á síðustu árum.“ Að sjálfsögðu verður upplýst um kostnaðinn þegar hann liggur fyrir og vissulega er það rétt hjá greinarhöfundi að alltaf er álitamál þegar að því kemur að ráðstafa fjármunum. Það hefur hins vegar verið mat stjórnar BSRB að einn mikilvægasti þátturinn í kjara- og réttindabaráttu launafólks sé að efla þá þætti samneyslunnar sem stuðla að jöfnuði og styðja við bakið á sjúkum, öryrkjum og atvinnulausum félögum okkar.
Víða erlendis þar sem verkalýðshreyfingin svaf á verðinum á meðan velferðarþjónustan var rifin niður og markaðsvædd eru menn nú að vakna upp við vondan draum, aukna mismunun, lengri biðraðir eftir heilbrigðisþjónustu og aukinn tilkostnað samfélagsins þegar allt fjárhagsdæmið er gert upp. Innan BSRB höfum við hvatt til umræðu um forgangsröðun, ekki aðeins í heilbrigðiskerfinu heldur í þjóðfélaginu öllu, sett fram tillögur um áherslur í skattlagningu, leiðir til að ná niður fjárlagahalla, taka á vanda landbúnaðarins og sjávarútvegs og ýmsum öðrum þáttum efnahagslífsins.
Skatta á heilbrigða, ekki sjúka
Um allt þetta hefur verið rækilega fjallað á vettvangi BSRB. Samtökin hafa viljað leggja sitt af mörkum til að finna leiðir sem styrkja og treysta lífskjörin í landinu og stuðla að auknum jöfnuði. Þetta hefur verið grunntónninn í málflutningi BSRB og um það hefur verið mjög breið samstaða. Það er og hefur verið um langt skeið grundvallaratriði í stefnu BSRB að samneyslan sé fjármögnuð á réttlátan hátt. Það á að skattleggja fólk á meðan það hefur heilsu, ekki þegar það er orðið veikt.
Og þar sem Pétur Örn spyr sérstaklega um afstöðu til nefskatts þá væri það þó skömminni skárra en innritunargjöld, en samkvæmt stefnu BSRB í skattamálum er eðlilegast að fjármagna heilbrigðisþjónustuna með tekjujafnandi sköttum en ekki síður lögð áhersla á að ná inn þeim milljörðum sem árlega eru sviknir undan skatti hér á landi.
Gjaldtaka og innritunargjöld á sjúkrahús geta skipt sköpum fyrir efnalítið fólk og leikur ekki á því nokkur vafi að verði haldið áfram á þessari braut sem stjórnvöld byrjuðu að feta sig eftir fyrir fáeinum árum með auknum þjónustugjöldum á sjúklinga þá munum við fyrr en varir sitja uppi með heilbrigðiskerfi sem mismunar fólki. Því miður er þegar farið að mismuna fólki í heilbrigðisþjónustunni eftir efnahag. Gegn þessu ber að sporna með öllum ráðum.