BSRB vill samstarf um framtíð heilbrigðiskerfisins
Birtist í Mbl
Ljóst er að enn eina ferðina eru heilbrigðismálin komin í brennidepil þjóðfélagsumræðunnar. Tvennt hefur gerst á undanförnum vikum sem vert er að gefa gaum að.
Nýjar áherslur úr læknastétt.
Í fyrsta lagi heyrast nú nýjar áherslur úr læknastéttinni. Enda þótt ályktun Læknasamtakanna á nýafstöðunum Ísafjarðarfundi sé um margt loðin er þar að finna endurómun af kröfum og tillögum sem þar komu fram um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Hér kveður við nokkuð nýjan tón úr læknastétt sem þegar á heildina er litið hefur fram til þessa verið því fylgjandi að heilbrigðisþjónustan sé rekin á vegum samfélagsins en ekki einkaaðila eins og tíðkast í Bandaríkjunum. Þar er tilkostnaðurinn aðeins að litlum hluta eða rúmlega fjörutíu af hundraði rekin fyrir skattfé. Allar rannsóknir á bandaríska heilbrigðiskerfinu eru á einn veg. Þar er að finna mikla félagslega mismunun og peningalega sóun. Í yfirlýsingu Læknafélagsins er engan veginn hvatt til þess að hverfa yfir í bandaríska heilbrigðiskerfið. En í ljósi umræðna á fundinum um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar er vert að spyrja hvað sé átt við með því orðalagi í ályktun fundarins að heilbrigðiskerfið „þarfnist endurskoðunar“ og boðið upp á viðræður við stjórnvöld um það efni.
Íslandsbanki-FBA vill einkavæða heilbrigðisþjónustuna.
Enginn þarf að velkjast í vafa um hvað fjármálamarkaðurinn vill í þessum efnum. Skilaboðum hefur bæði leynt og ljóst verið komið til ríkisstjórnarinnar um að opna gróðaöflum leið að heilbrigðisþjónustunni. Fjármálamenn vita sem er að hér er á ferðinni nær óþrjótandi auðlind. Samfélagið og einstaklingar munu um ókominn tíma láta mikla fjármuni af hendi rakna til heilbrigðismála. Þá fjármuni vilja þessir aðilar ná í. Í frétt í Morgunblaðinu af morgunfundi Verslunarráðsins er meðal annars vitnað í ræðu Bjarna Ármannssonar, forstjóra Íslandsbanka-FBA. Í fréttinni sem birtist 18. ágúst sl. er haft eftir forstjóranum að „…ríkið væri með starfsemi á mörgum sviðum sem það yrði að koma sér út úr. Bjarni nefndi sérstaklega fjármála-, orku-, heilbrigðis- og menntageirana og sagði heilbrigðisgeirann velta hátt í þriðjungi af útgjöldum ríkis og sveitarfélaga.“
Ráðherra boðar stefnubreytingu.
Engum þarf að koma það á óvart að þessar raddir skuli heyrast. Ríkisstjórnin hefur sýnt í verki að hún er tilbúin að ganga æði langt í einkavæðingarátt og má þar til dæmis nefna nýgerðan samning við fyrirtækin Aðalverktaka og Securitas um að reisa og reka elliheimili í Reykjavík. Samningurinn við þessi fyrirtæki, sem koma fram undir hinu smekklega heiti Öldungur hf., var sannanlega mjög óhagstæður fyrir skattborgarann. Hefur vakið furðu á hvern hátt var mismunað við útboðið - kom hugtakið einkavinavæðing þá upp í hugann hjá mörgum - en steininn tók þó úr þegar í ljós kom að ekki mátti samnýta þjónustu á stofnunum sem voru til staðar þótt sýnt væri að það kæmi betur út fyrir skattborgarann. Þessu máli hefur verið skotið til rannsóknar hjá Ríkisendurskoðanda og verður fróðlegt að sjá niðurstöður eftir þá athugun. Nú bregður hins vegar svo við að heilbrigðisráðherra boðar stefnubreytingu varðandi einkavæðinguna. Það gerði Ingibjörg Pálmadóttir í yfirlýsingu sem birtist í Degi en þar lýsti ráðherrann því afdráttarlaust yfir í viðtali við blaðið að ekki yrði um frekari einkavæðingu að ræða. Ljóst er þó að þetta mun ekki ganga átakalaust fyrir sig og má til marks um það nefna að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Ásta Möller og Katrín Fjeldsted, sendu í kjölfarið frá sér grein þar sem hvatt er til frekari einkavæðingar.
Ráðherra sent erindi.
Viðhorf markaðssinna virðast hins vegar ganga þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar. Mjög mikilvægt er að fram fari kröftug umræða í þjóðfélaginu um framtíðarskipan velferðarkerfisins áður en ráðist er í grundvallarbreytingar á því. Það er afleitt þegar framkvæmt er án slíkrar umræðu. Verst af öllu er þegar reynt er að ná settu marki með því að fara bakdyramegin, láta hlutina einfaldlega „gerast.“ Samtök launafólks hafa látið sig þessi mál mjög skipta á undangengnum árum og hefur BSRB staðið þar fremst í flokki. Kemur þar margt til. Innan vébanda bandalagsins starfa margir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar og skiptir allt skipulag hennar þá að sjálfsögðu máli en ekki er síður á það að líta að kjör fólks ráðast mjög af kostnaði sem það hefur af heilbrigðisþjónustu, bæði sem notendur hennar og sem skattgreiðendur. BSRB hefur því ritað heilbrigðisráðherra bréf og óskað eftir viðræðum um framtíðarskipan heilbrigðismála og telja samtökin sig ekki síður eiga erindi að slíku viðræðuborði en Læknasamtökin.