BURT!
Landspítalinn skilgreinir Rjóðrið á vef sínum sem “hjúkrunar- og endurhæfingardeild fyrir langveik og fötluð börn.”
Þangað fór lögreglan í nótt til að sækja Yazan, 11 ára fatlaðan dreng með hrörnunarsjúkdóm, til að vísa honum úr landi.
Þetta er gert þvert á allt sem kallast má mannúð eins og við skiljum hana og skilgreinum.
Þetta er gert þvert á samninga og sáttmála um réttindi barna.
Þetta er gert þvert á vilja þúsunda Íslendinga sem með undirskriftum og samstöðufundum hafa beðið um að þessum litla dreng verði hlíft og veitt hér skjól.
Og það héldum við mörg að hann hefði verið búinn að fá í Rjóðri Landspítalans.
Hvers vegna er Yazan litla og foreldrum hans gert þetta?
Hvers vegna er starfsfólki Landspítalans gert þetta?
Hvers vegna er lögreglumönnunum sem skikkaðir eru í þessi verk gert þetta?
Hvers vegna er samfélaginu öllu gert þetta?
Þessu verður ráðherra lögreglumála að svara. Þessu verður öll ríkisstjórnin að svara. Svörin ræðum við svo í næstu kosningabaráttu. Hún hlýtur að vera sakmmt undan.
Um tvo kosti er nefnilega að ræða:
Snúa þessari ákvörðun við þegar í stað.
Slíta ríkisstjórninni þegar í stað og boða til kosninga STRAX.
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.