Fara í efni

BURT MEÐ KJARADÓM ! - GEÐFELLT, SAGÐI ÞÁVERANDI FORSÆTISRÁÐHERRA

Á Alþingi árið 1995 lagði ég fram þingmál sem fól það í sér "að leggja niður kjaradóm og kjaranefnd ..." Laun þeirra sem kjaradómur úrskurðar nú um "verði ákveðin af Alþingi að fenginni tillögu launanefndar sem starfi á ábyrgð Alþingis. Laun þeirra sem kjaranefnd úrskurðar um verði ákveðin í kjarasamningum stéttarfélaga." Lagt var til að skipuð yrði nefnd "sem taki saman skýrslu um reynsluna af störfum kjaradóms og kjaranefndar með nákvæmu yfirliti yfir kjör allra þeirra sem þar heyra undir með skírskotun til almennrar launaþróunar í landinu. Hún skili tillögum sínum svo snemma að unnt verði að afgreiða nýskipan þessara mála fyrir lok yfirstandandi þings."

 Menn beri ábyrgð á gjörðum sínum

 Í greinargerð með þingmálinu voru færð rök fyrir þessari nýskipan. Þar sagði: "Eins og nú háttar til úrskurðar kjaradómur um laun ýmissa æðstu embættismanna ríkisins, þar á meðal dómara og ráðherra, svo og alþingismanna. Kjaranefnd ákvarðar laun ýmissa annarra embættismanna sem stéttarfélög semja ekki fyrir. Á undanförnum árum hefur oft komið fram hve ófullnægjandi þessi skipan er. Þannig hefur það ítrekað vakið mikla reiði í þjóðfélaginu þegar kjaradómur hefur kveðið upp úrskurði um margfaldar kjarabætur til skjólstæðinga sinna á við þær sem almennt launafólk hefur þurft að sætta sig við. Svo rammt hefur kveðið að þessu að stjórnvöld hafa séð sig knúin til að setja lög á úrskurð kjaradóms. Þetta hefur það í för með sér að lögin ná ekki þeim tilgangi sem þeim var ætlað að þjóna. Mörg rök mæla gegn þeirri hugsun sem kjaradómur og kjaranefnd byggist á. Þannig er í hæsta máta óeðlilegt að Hæstiréttur skipi aðila í kjaradóm sem m.a. tekur ákvörðun um eigin launakjör, þ.e. kjör dómara. Það hlýtur einnig að vera grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi að tengja pólitískt vald annars vegar og ábyrgð hins vegar. Mikilvægt er að tryggja að sá sem tekur pólitíska ákvörðun þurfi jafnan að standa reikningsskil gerða sinna. Þetta á ekki síst við um ákvarðanir um kjaramál sem eru pólitísk í eðli sínu. Þegar kjaramál eru annars vegar er enginn endanlegur sannleikur til. Þar eru aðeins skoðanir og viðhorf..."

Geðfelld hugsun en reynslan hræðir, sagði Davíð

Þessi rökstuðningur á ekki síður við nú en fyrir 10 árum þegar þingmálið var sett fram. Í umræðum um það tók enginn undir með mér en talsverð umfjöllun varð hins vegar um málið í fjölmiðlum og féll hann almennt í góðan jarðveg í þjóðfélagsumræðunni. Einn maður tók undir þá hugsun sem þingmálið hvíldi á þótt ekki styddi hann það en það var Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra. Hann sagði m.a. við umræðuna: "Ég get alveg sagt út af fyrir sig að mér finnst sú hugsun sem hv. þm. reifar vera heldur geðfelld. Að þingmenn eigi að bera ábyrgð á þessu sjálfir. En þegar maður les sér til um þær umræður sem hafa átt sér stað þegar ...þingmenn báru ábyrgð á þessu sjálfir, þá verður maður hikandi vegna þess að gagnrýnin í þjóðfélaginu var gríðarlega mikil á það kerfi. Þar væru menn dómarar í eigin sök og hversu góðir og réttsýnir menn sem þeir væru þá gerðist það um þá eins og alla aðra, að þeim færi ekki vel að vera dómarar í eigin sök. Sú hugsun sem hv. þm. reifar hins vegar fellur vel að minni hugmyndafræði um að menn eigi að bera ábyrgð sjálfir á öllum slíkum gjörðum..."

Ólga þarf ekki að vera slæm

Nú er vissulega ólga eina ferðina enn. En þá hljótum við að spyrja: Er ólgan slæm? Ólgan er ekki slæm, þótt atvinnurekendur sem greiða launafólki sínu smánarlaun skjálfi alltaf á beinunum þegar launaþjóðin fer að ræða málin á gagnrýnin hátt. Ólgan er beinlínis góð og heilbrigðisvottur um vilja Íslendinga til að stuðla að jöfnuði og standa gegn hvers kyns misrétti og spillingu. Það sem hins vegar er slæmt er að þeir sem stýra för í þjóðfélaginu, stjórnvöld og atvinnurekendur, hafi engan vilja á því að stefna í átt til jöfnuðar. Þá aðeins hreyfa þeir sig að lognmollunni sé í voða stefnt! Það má ekki fara upp úr hjólförunum, segja þingmenn Íhaldsins og talsmenn atvinnurekenda.
Að máli kom við mig kona sem starfað hefur í fiskvinnslu um langt árabil. Hún sagði að sér yrði óglatt við að hlusta á þennan  mannskap. Svo naumlega skömmtuðu þeir laun úr hnefa að Íslendingar hrökkluðust úr hverri starfsgreininni á fætur annarri, þar á meðal fiskvinnslunni. Íslenska verkafólkið reisti nefnilega þá kröfu að vera þátttakendur í íslensku samfélagi með öllum þeim tilkostnaði sem það hefði í för með sér, blöðunum, bókunum, leikhúsi, tónleikum og bíói– að ógleymdum ferðalögum. Þegar launin hrykkju ekki til væri leitað í önnur störf. Þá væri viðkvæðið af hálfu atvinnurekenda iðulega að Íslendingar vildu ekki vinna þessi störf. Það er alrangt. Hið rétta  sé að Íslendingar vilji ekki láta bjóða sér þau laun sem eru í boði. Þess vegna væri nú flutt inn verkafólk frá láglaunasvæðum heimsins. Þetta væri allt á ábyrgð atvinnurekendavaldsins sem nú óttist að ólga kunni að breiðast út og umskapast í sterka kröfugerð launafólks næst þegar sest verður að samningaborði.
Ef svo yrði myndi ég fagna því.

HÉR er að finna umrætt þingmál og umræður um það.