Fara í efni

"BUSH BELONGS...

...bin Laden belongs – all, all belong. Gays, lesbians and so called straigths, all are loved, all are precious... Allir eiga samleið. Allir. Bush og bin Laden, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir. Þetta er ein fjölskylda og í þessari fjölsyldu eiga að gilda lögmál fjölskyldunnar, þar sem hver leggur fram eftir getu og hver fær eftir þörfum. Það er suður-afríski biskupinn Desmond Tutu sem talar á heimsþingi Alkirkjuráðsins í Brasilíu í febrúar sl.. Hann leggur áherslu á að stríð gegn hryðjuverkum – terrorisma – verði aldrei hægt að vinna á meðan skilyrði og kringumstæður í heiminum kalla á fátækt, vanþekkingu og sjúkdóma sem gera fjölskyldu guðs barna örvilnaða. Á þessa leið skilaði Ævar Kjaratansson boðskap Tutus til íslenskra útvarpshlustenda.
Á páskum og öðrum stórhátíðum sýnir Ríkisútvarpið gjarnan hvers það er megnugt. Ég stilli yfirleitt á gömlu Gufuna við slík tækifæri og ekki brást hún nú fremur en fyrri daginn. Við yfirferð yfir dagskrána var ég ákveðinn að missa ekki af þætti Ævars Kjartanssonar um heimsþing Alkirkjuráðsins og varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Ekki er nóg með að Ævar sé frábær útvarpsmaður heldur var efniviðurinn einnig sérlega áhugaverður. Alkirkjuráðið, sem eru eins konar regnhlífarsamtök kirkna – þó ekki kaþólsku kirkjunnar – var stofnað árið 1948 eftir allangan aðdraganda. Upphaflega áttu 90 kirkjur aðild, nú eru þær 347 talsins.
Einhverju sinni á fréttamannsárum mínun þingaði Alkirkjuráðið í Reykjavík og fylgdist ég þá nokkuð með þinghaldinu, sem var einkar áhugavert. Athygli mína vakti hve róttækt þingið var og af hve mikilli einurð og óttaleysi menn héldu fram mórölskum boðskap sínum. Maður fann að það var sannfæring að baki orðunum – innri eldur.
Svo er hitt að Desmond Tutu er náttúrulega engin venjulegur maður. Hann var í forsvari þjóðar sinnar, hinnar svörtu Suður-Afríku, sem var kúguð, hædd og spottuð um áratugi áður en kynþáttastefnan – apphartheid – var kveðin í kútinn á níunda áratug síðustu aldar. Þá gekkst Desmond Tutu fyrir því að settur var á laggirnar eins konar fyrirgefningardómstóll – court of reconciliation, dómstóll sátta og sannleika. Frammi fyrir honum játuðu kúgararnir glæpi sína og misgjörðir og hlutu fyrirgefningu – eftir að hið siðferðilega uppgjör hafði átt sér stað. Þetta lýsir dýpt og óendanlegum siðferðisstyrk. ( sjá einnig HÉR og HÉR)

Í páskadagskránni mætti nefna fjölda dagskrárliða með hágæða efni. Tónlist, smásögu eftir Laxnes, leikrit, viðtalsþætti, t.d. fróðlegt og skemmtilegt viðtal Lísu Pálsdóttur við Eymund Magnússon, fyrrverandi prentmyndasmið. Sumu hef ég síðan misst af eins og gengur. Sem betur fer missti ég þó ekki af bráðskemmtilegum tónlistarþætti í umsjá Ingveldar G. Ólafsdóttur, Söngvar hjartans. Í þættinum fluttu Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzosópransöngkona og Víkingur Heiðar Ólafsson, pínanóleikari,  ljóðaflokka eftir Robert Schumann og Edvard Grieg. Frábært listafólk!
Mér virtist Ragnheiður Ásta Pétursdóttir vera á vaktinni nær alla helgina. Hún er meira en þulur og kynnir. Hún rækir sitt hlutverk af alúð og vandvirkni og slíkri reisn að kynningar hennar lyfta allri dagskránni. Þær eru sjálfstæð dagskrárgerð.
Kærar þakkir allir.
Kærar þakkir RÚV.