DÆMALAUS HANNES H. GISSURARSON Í KASTLJÓSI!
Sæll Ögmundur...
Ég horfði og hlustaði á Kastljósþáttinn 31. október þar sem Karl Th. Birgisson og Hannes H. Gissurarson sátu fyrir svörum. Að vísu var frekjan og yfirgangur Hannesar slíkur að Karl og spyrjandi þáttarins komust varla að. Hrokinn var yfirgnæfandi. Hannes var og hefur verið einn aðal fjárhagspostuli Sjálfstæðisflokksins alla valdatíð Davíðs, og fram á þennan dag. Hann var einn aðal hvatningarmaður inngöngunnar í EES, tengingu efnahags Íslands við alþjóðaauðvaldið og einkavinavæðingarinnar sem skapaði sameiginlega umhverfið, eða athafnarjarðveginn fyrir fjárglæframennina, sem orsakaði núverandi fjárhagshrun Íslensku þjóðarinnar!
Það markverðasta sem Karl Birgisson sagði, var að einu mennirnir sem styddu nú Davíð Seðlabankastjóra, væru Björn Bjarnason Dómsmálaráðherra, Geir Haarde Forsætisráðherra, Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri Grænna. Nokkuð furðuleg staðhæfing ef rétt er. Annars var meira rætt um stjórnmál Bandaríkjanna en stjórnmál Íslands, þó við séum á barmi glötunar!
Það var makalaust að verða vitni að falsi og furðuskýringum Hannesar á því hvað hafi skeð ásamt úrræðinu við fjárhagshruni íslensku þjóðarinnar. Hann sagði í byrjun hversu hann kenndi í brjósti um íslenska alþýðu... Sem er nú á vonarvöl með sig og afkomendur sína í gapastokk erlends ofurvalds á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það var ekki laust við að manni yrði flökurt við að vitna krókódílatár Hannesar. Hann sagði að hann teldi að opinberir starfsmen á borð við sig ættu að hafa kaup sitt skert til að aðstoða við viðreisnina, en nefndi ekki hversu mikið það ætti að vera eða hvenær hann ætlaði að endurgjalda hluta launa sinna.
Hannes Gissurarson sagði, án þess að roðna, að aðal vandamálið hafi verið að "bankarnir hafi skuldsett svo mikið." Hann sagði ekki við hverja, né á hvaða grundvelli, eftir hvaða reglum né hvar peningarnir væru nú, því ekki gufa þeir upp, og sagði síðan ekki meir um orsökina. Hann vildi ekki kenna fjárhagsstefnu og meðferð stjórnvalda um hrunið, þó hún sé öllum auðséður skaðvaldur, enda átti hann drjúgan þátt í henni. Eftir þessu verður almenningur að taka og gera sér ljóst að hér er um að ræða einn aðal fjármálapostula Sjálfstæðisflokksins, og kennara í Háskólanum í þokkabót, sem er að bjóða nemendum sínum heim til sín í partí, líklegast til að reyna að halda vinsældum.
Hannes sagði að leiðirnar að lausn vandamála okkar væru þrennar; að leita til Norðurlanda til aðstoðar, ganga í ESB, eða, eins og hann sagði snögglega með glott við tönn, "að leita skjóls hjá Bandaríkjunum," eins og að tilgangur eyðileggingar íslensks efnahags væri einmitt það! Hannes hlýtur að hafa vitað að forsætisráðherrann, vinur hans, Geir Haarde, með kjölturakka sínum, hafi farið auðmjúkur bónarleið með hatt í hönd eftir aðstoð frá Bandaríkjunum, en var rekinn á dyr eins og daunillum hundi. Enda eru nú ríkisstjórn Bandaríkjanna næst Englendingum að óvinsældum á Íslandi. Það má hiklaust tengja alþjóðahlið fjárhagsvandamálsins á Íslandi, rakleit til hruns alþjóðaauðvaldsins (kapítalismans) og ríkisstjórnar Bandaríkjanna.
Hin hliðin sem er öllu alvarlegri, er heimatilbúin. Hana má rekja beinlínis til inngöngunnar í EES og síðan einkavæðingarinnar ásamt stjórnlausri markaðshyggjunni sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson með aðstoðarmönnum sínum og "spekingum" eins og Hannesi Gissurarsyni, stóðu fyrir.
Það er ekki að furða að þjóðin er nú loksins að sjá hið rétta andlit þeirra manna sem staðið hafa að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og hjálparflokka hans undanfarin tæp 20 ár, sem mun að vonum lýsa sér með atkvæðagreiðslu kjósenda í næstu alþingiskosningum! En ekki öfunda ég þá ríkisstjórn sem tekur við rústum núverandi stjórnvalda, og legg til að þjóðin verði þolinmóð, því það verður ekki auðvelt mál að byggja nýtt, mannlegt, arðbært en fyrst og fremst þjóðlegt þjóðfélag á þeim rústum! En frelsi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar í föðurlandi hennar Íslandi er nú í húfi. Nú gildir hið fornkveðna: ÍSLANDI ALLT!
Kveðja,
Úlfur