Fara í efni

DALVÍKINGAR BJÓÐA ÞJÓÐINNI Í MAT EN TREYSTA SÉR EKKI AÐ ELDA OFAN Í BÖRNIN SÍN

Dalvíkingar buðu í sumar 30 til 50 þúsund manns í fría fiskmáltíð af miklum myndarskap. Þess vegna kom mörgum á óvart þegar fréttir bárust af því að Dalvíkurbær skyldi ekki treysta sér til að elda ofan í grunnskólabörnin sín. Eins og fram hefur komið í fréttum var matreiðslan boðin út og þegar upp var staðið hafnaði viðskiptasamningur um matreiðsluna hjá fyrirtæki á Hvolsvelli, sem er sem kunnugt er fjarri Dalvík eða  í nokkur hundruð kílómetra flutningsleið þaðan.

Frá Hvolsvelli stendur sem sé til að flytja matinn flugleiðis til Dalvíkur, þar sem hann verður hitaður upp og síðan færður börnunum.
Jón Bjarnason, alþingismaður VG hefur spurt nokkurra áleitinna spurninga af þessu tilefni og tek ég heilshugar undir þær. Þannig spyr þingmaðurinn einfaldlega fyrst hvort þetta ráðslag sé í samræmi við heilbrigða skynsemi! Þetta þykir mér góð spurning. Í öðru lagi vill hann vita hvort ekki sé rétt að gefa sér það almenna markmið að stefna að sjálfbæru samfélagi þar sem nærumhverfið sjái sér og sínum farborða. Hvað með manneldishugsun, spyr Jón Bjarnason ennfremur, er það í samræmi við hana að bjóða lægstbjóðanda samning um að sjá ungviðinu fyrir næringu?
Þá er spurt um þjóðhagslega skynsemi þess að flytja þennan varning, eldaðan mat, langan veg með þeirri mengun sem slíkum langflutningunum fylgir.
Allt þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar.  
Sjálfur er ég kominn hringinn í þessari röksemdafærslu og spyr hvað valdi því  að stórhuga samfélag eins og Dalvík, sem býður þjóðinni í mat, skuli ekki treysta sér til þess að matreiða ofan í börnin sín. Hinu ber að halda til haga að matur – þótt hann sé langt að fluttur – getur verið ágætur og altént betri en sjoppufæðið sem til skamms tíma var hlutskipti allt of margra skólabarna á Íslandi.

Í Bretlandi ánetjuðust stjórnvöld útboðshugsuninni fyrir fáeinum árum; töldu sig vera að ná hagstæðum samningum. Nú eru ríki og sveitarfélögin þar í landi að reyna að losa sig út úr þessum samningum því fyrirtækin reyndust fyrst og fremst reyna að maka krókinn og gáfu lítið fyrir heilbrigði barnanna.

Ekkert slíkt ætla ég viðkomandi fyrirtæki á Hvolsvelli. Því fer fjarri. Það sem hér er hins vegar um að ræða, og er til umfjöllunar, er almenn stefna og hvort æskilegt sé að fara inn á þessa braut með mat í skólum. Í því samhengi er rétt að horfa til reynslu annarra þjóða. Þar hefur komið í ljós að þegar á heildina er litið hafa manneldissjónarmið ekki orðið efst á blaði þegar upp hefur verið staðið, jafnvel þótt einstakir framleiðendur hafi viljað hafa slík viðhorf í heiðri.

Sú spurning gerist áleitin hvers vegna það færist í vöxt að opinberar stofnanir fara á útboðsmarkað með ýmsa þjónustu. Þetta hefur gerst í ræstingum og nú virðist stefnan einnig tekin á útboð með matseld. Ræstingar hafa verið boðnar út til að draga úr kostnaði og hefur þetta komið alvarlega niður á kjörum starfsfólksins, sem yfirleitt bjó ekki við góð kjör fyrir. Auðvitað á fólk í þessum störfum að búa við sams konar kjör og öryggi og annað starfsfólk viðkomandi stofnana.