Fara í efni

DAPURLEGT: VILL HEIMILA FJÁRHÆTTUSPIL OG SPILAVÍTI

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata
, talaði á þingi í gær fyrir því að fjárhættuspil yrðu leyfð að fullu og allar hömlur og takmarkanir afnumdar.

Ég get vissulega tekið undir að tvískinnungs gætir í umræðu um fjárhættuspil. Þannig hef ég löngum bent á að spilasalir Happdrættis Háskóla Íslands, Gullnáman,  eru að sjálfsögðu ekkert annað en spilavíti. Og sama gildir um spilakassa á vegum annarra spilakassarekenda. Spilakassar þeirra eru nákvæmlega sams konar kassar og er að finna í spilavítum í Las Vegas og Mónakó.

Sem innanríkisráðherra lagði ég fram lagafrumvarp með ítarlegri langtímaáætlun um hvernig megi koma böndum á þennan ágenga vágest sem hefur lagt líf fjölda einstaklinga og fjölskyldna í rúst.

Í þessu frumvarpi var horfst í augu við tvennt, a) að á Alþingi væri ekki meirihluti fyrir því að banna spilakassa og fjárhættuspil með öllu, b) að fjárhættuspil væru í síauknum mæli að færast yfir á netið. Hugmyndin með frumvarpinu var sú að reisa skorður við spilastarfsemi og færa hana með tímanum inn í fyrirkomulag sem væri ekki eins áreitið. Í annan stað stóð til að heimila takmarkaða netspilun í höndum innlendra aðila. Því miður náði frumvarpið ekki fram að ganga, svo mikil var andstaðan á Alþingi, þar á meðal frá Birgittu Jónsdóttur. Þess vegna kom afstaða hennar í gær ekki á óvart.

Mér finnst mikilvægt að hemja hinn gráðuga vágest. Tvískinnung á ekki að afnema með því að gefast upp og leita samræmis niður á við - stíga niður á lægsta þrep - heldur leita samræmis upp á við.

Að mínu mati er uppgjöf fyrir spilavítisrekendum stóralvarleg því fjárhættuspil svipta öll þau frelsinu sem ánetjast spilafíkninni - og þau eru ófá sem það hendir.

Oft vill það gerast, einsog kom fram í málflutningi Birgittu Jónsdóttur í gær, að öll happdrættisstarfsemi er sett undir sama hatt. Menn geti ánetjast happdrættum og lottóvinningum engu síður en spilavítisvélunum. Þess vegna eigi að leyfa allt. Þannig gengur rullan.

Þessi málatilbúnaður er tilraun til að réttlæta starfsemi sem í mínum huga er engan veginn réttlætanleg: Að heimila  að í fjárgróðaskyni sé gert út á einstaklinga sem ekki eru sjálfráðir gjörða sinna.

Vinur minn einn, sem sjálfur er spilafíkill, hefur sett fram eftirfarandi aðgreiningu:

„Happdrætti taka lítið af mörgum. Spilakassar taka mikið af fáum. Og allt af sumum."

Hér er slóð á framangreint frumvarp með ítarlegri greinargerð: http://www.althingi.is/altext/141/s/0615.html