Fara í efni

DAUÐASPRENGJUR MEÐ EIGINHANDARÁRITUN

Ég var að fletta gömlum dagblöðum í dag og fann ég þá fyrir hugrenningatengslum.

Hugurinn reikaði aftur til níunda áratugarins, sennilega rétt upp úr 1980 en ég var þá fréttamaður í erlendum fréttum á Sjónvarpinu. Mér hafði borist í hendur fréttafilma frá einhverri alheimsfréttaveitunni sem fréttastofan var í áskrift hjá. Ekki man ég hverjum bandarískir hergagnaframleiðendir voru þá að selja sprengjueldflaugar en á þessari fréttafilmu mátti sjá forráðamenn vopnaframleiðenda ásamt hempuklæddum presti sem þeir höfðu fengið til að blessa drápstólin með þeim orðum að vonandi dygðu þau vel til þeirra verka sem þeim væru ætluð. Ég man eftir ógleðinni sem setti að mér.

Hugrenningatengslin við þetta myndskeið urðu þegar ég fletti Morgunblaðinu frá 24. september síðastliðnum þegar ég sá Selensky Úkraínuforseta mættan í vopnaverkmiðju í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum að strjúka drápstólin við greinilega velþóknun framleiðenda. Í stað þess að fá prest til að blessa sprengjurnar áritaði forsetinn sprengjuoddana svo vita mætti um hug hans þegar þær næðu á leiðarenda. Ég veit varla hvaða orð á að nota um þetta en mikið er dapurlegt að hugsa til þess að Íslendingar hafi verið í fremstu röð þeirra sem hvatt hafa til áframhaldandi mannfórna.

Ofar á fréttasíðu Morgunblaðsins þennan dag sagði frá því að daginn áður hefðu Ísraelsmenn drepið 274 í loftárás á Líbanon.

Engin samstöðuflögg í Reykjavík þann daginn og engu sendiráði lokað.

---------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.