Davíð dómarinn
Sæll Ögmundur, aðeins örfá orð um Davíð og Halldór.
Ábyrgðarmaður fjölmiðlaskýrslunnar er nýskipaður dómari og fulltrúi íslenskrar lögfræði í útlöndum. Margt af því sem hann hefur látið frá sér fara er athyglisverðast og mest afhjúpandi af því sem sagt hefur verið um frumvarp þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar um fjölmiðla, og eru þá yfirlýsingar tvímenninganna teknar með. Dæmi: “Nú kann það að vera matsatriði hvort þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar eyðileggur rekstrargrundvöll Norðurljósa. Ef þú spyrðir mig að þessu þá myndi ég svara: ég veit það ekki. En mín fyrstu viðbrögð væru þau að ef þetta eru vel rekin fyrirtæki, ef þau eru að skila hagnaði, þá sjái ég ekki ástæðuna fyrir því að aðrir geti ekki tekið við þeim og rekið þau á þeim grundvelli sem þau starfa nú á. Það er auðvitað afar mikilvægt að þau verði áfram í rekstri, það sem við stefnum að er jú að tryggja fjölbreytni í eignarhaldi og þar með í fjölmiðlum.” (Davíð Þór Björgvinsson, dómari, í Morgunblaðinu 2. maí 2004.) Hér eru nokkur atriði sem rétt er að undirstrika: 1) Dómarinn gerir jafnvel ráð fyrir að frumvarp Davíðs og Halldórs eyðileggi rekstrargrundvöll Norðurljósa, 2) dómarinn sem hefur kannað markaðinn í smæstu atriðum veit ekki hvort frumvarpið setur Norðurljós á hausinn, 3) dómarinn gerir ráð fyrir að ef fyrirtækin skili hagnaði þá geti einhverjir aðrir tekið við og rekið Norðurljós, 4) dómarinn er þeirrar skoðunar að fyrirtækin verði áfram í fullum rekstri og 5) dómarinn heldur, eftir nákvæma skoðun á fjölmiðlum innlendum og útlendum, að fjölbreytt eignarhald tryggi fjölbreytni í fjölmiðlum. Fullyrðingarnar fimm sem hér eru undirstrikaðar eru þess eðlis að þær hljóta að vekja spurningar um það hvort dómarinn hafi sjálfur samið skýrsluna sem hann er skrifaður fyrir. Fullyrðingarnar fimm vekja líka spurningar um hversu vel dómarinn hefur kannað fjölmiðlamarkað Vesturlanda þar sem enginn sérfróður aðili hefur hingað til treyst sér til að fullyrða að fjölbreytt eignarhald fæði af sér fjölbreytni í efni fjölmiðla. Fullyrðingin sem er athyglisverðust er hins vegar fullvissa dómarans um að aðrir aðilar muni taka við rekstri Stöðvar 2. Hér er vísað inn í framtíðina. Spurningarnar sem menn hljóta að velta fyrir sér i ljósi ummæla dómars eru þessar: Hver á að fá að kaupa og reka Stöð 2 þegar búið er að taka fyrirtækið af þeim sem nú eiga það? Er það kannski gamla SÍS-samsteypan, Finnur Ingólfsson í VÍS og samvinnusjóðirnir, eða smásölublokkir sem ekki eru markaðsráðandi samkvæmt ráðherraúrskurði? Ætli þetta skýri ekki afstöðu framsóknarmannanna!
Ólína