Davíð flytur stolinn leirburð á landsfundi
Ekki hefði ég nú trúað því að óreyndu að forsætisráðherra færi að veifa stolnum fjöðrum til að halda landsfundarfulltrúum sínum vakandi yfir þeim ræðudoðranti sem hann þuldi yfir félögum sínum. Inn á milli þeirra náttúruhamfara sem hann boðaði þjóðinni ef hægrimenn héldu áfram völdum stakk hann kvæðum og kviðlingum, fáeinum til dálítillar uppörvunar, og m.a. þessum:
Ríkisstjórn með þrótt og þor
á þjóðráðunum lumar,
ef við kjósum vinstra vor
verður ekkert sumar.
En hvaðan er fyrirmyndin að þessum leirburði komin? Ég fæ ekki betur séð en hjálparkokkar Davíðs hafi laumast í erindi úr kvæði mínu Bráðum kemur betri tíð sem birtist í ljóðabók minni og sem út kom á lýðveldisárinu 1944. Hér með birti ég erindi og má þá berlega sjá þvílíka misþyrmingu hugverkið hefur mátt þola:
Við höfum ennþá þrótt og þor
og þreyjum hungrið gumar,
brosandi kemur bráðum vor
og blessað íslenskt sumar.
Allir sjá að þarna hefur fallegum kveðskap verið breytt í áróðurshnoð, já ómerkilegt og daunillt íhaldssparð. Þá vekur kosningaslagorð Sjálfstæðisflokksins ekki síður athygli mína og það rennir enn frekari stoðum undir meintan hugverkastuld. Slagorðið er nefnilega Áfram Ísland - en það er hvorki meira né minna en sjálfur titillinn á áðurnefndri ljóðabók minni sem út kom 1944 og var nýlega endurprentuð (Rv. 1999, fæst í flestum alvöru bókabúðum). Ég segi bara svei ykkur sjálfstæðismenn og vona heitt og innilega að þetta óþokkabragð eigi eftir að koma í bakið á ykkur.
Með baráttukveðju og áfram VG, Jón Bisnes