Davíð Oddsson og símasnúran
Vísindin skýra ýmis tilbrigði í mannlegri hegðan í ljósi atvika sem hafa haft mikil áhrif á sálarlíf okkar, iðulega í bernsku. Svo er þó að skilja að Davíð Oddsson forsætisráðherra hafi verið búinn að slíta barnsskónum þegar hann varð fyrir reynslu sem greinilega hefur haft djúpstæð áhrif á hann. Frá þessu greinir hann í mjög opinskáu og einlægu viðtali við DV nú um helgina. Á hispurslausan hátt segir hann blaðamanni frá ástæðunni fyrir því að honum er uppsigað við ríkisfyrirtæki og telur brýnt að breyta öllum slíkum í hlutafélög og selja þau hið bráðasta.
Þannig var, að eftir að Davíð hafði stofnað heimili, þurftu þau hjón að festa kaup á síma. Símanum fylgdi snúra sem var hálfur annar meter að lengd. Það þótti Davíð heldur stutt. Næsta staðallengd var hins vegar of löng. Davíð þorði "ekki fyrir mitt litla líf", eins og hann kemst að orði í viðtalinu að stytta snúruna og starfsmenn Landssímans gátu ekki skaffað umbeðna lengd. Við þá þýddi náttúrlega ekkert að ræða enda viðmót starfsmanna Landssímans á þessum árum á einn veg. Við skulum gefa forsætisráðherra Íslands orðið: " Við munum til að mynda hvernig þjónusta Símans var ... Það var bara sagt "Étiði skít" við alla kúnna."
Mig langar til að þakka forsætisráðherranum fyrir að opna sig á þennan hátt því ég efast ekki um að þetta getur hjálpað öðrum sem fengið hafa ör á sálina vegna erfiðrar reynslu af þessu tagi. Opinská umræða er alltaf til góðs og til þess fallin að eyða fordómum og það tel ég víst að hafi vakað fyrir forsætisráðherra með þessu viðtali.
Æskilegt væri að fleiri ráðherrar segðu sína sögu. Skyldu þeir hafa fengið vitlausa lengd af símasnúrum eða hefur eitthvað annað hent þá sem hefur haft varanleg áhrif á hegðan þeirra og lífsviðhorf? Ég vona að engum hafi svelgst á Gvendarbrunnavatninu. Eða skyldi þar vera komin skýring á lagafrumvarpi, sem kynnt var þinginu í vor, um að heimila að einkavæða drykkjarvatnið?