DEBET OG KREDIT Í KEFLAVÍK
Sæll Ögmundur.
Það er vond blaðamennska þegar fjöldi sjálfstæðismanna þarf að líða fyrir pukrið í kringum sparisjóðinn sem ber nafn Keflavíkur. Það er til dæmis hræðilegt að hugsa til þess ef fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, eða einhver bæjarstjóri á Suðurnesjum, eða einhverjir sem ætluðu að endurreisa hersjúrkahús í Heiðinni eru látnir velkjast í vafa um hvaða einstaklingar bera ábyrgð á tugmilljarða tapi SpKef.
Það þarf að birta myndir af þessu fólki. Hér með er skorað á fjölmiðil, a.m.k. DV, að birta myndir af þeim sem bera ábyrgðina, og upplýsingar um upphæð afskrifta sem kenndar eru við SpKef. Það gengur ekki að ræða þessi mál, milljarðatugina sem við eigum að borga, eins og í hlut eigi einhver ópersónuleg huldufyrirtæki og ekki einstaklingar sem vilja bera ábyrgð á gjörðum sínum.
Hvaða einstaklingar bera ábyrð á innlánum í Reykjanesbæ, af hálfu lífeyrissjóða, hver bar ábyrgð á innlanum af hálfu Grinavíkurbæjar þegar í óefni stefndi. Hver rekur Kistu? Hver ber ábyrgðina ef fjöldi eignarhaldsfélaga hefur gert útá að mjólka út úr SpKef? Tek mér ekki í munn orðið sparisjóður því hér var ekkert spari, nema hugsanlega spariklæðnaður meintra fjárglæframanna. Hver ber ábyrgðin á því að athafnamenn á Suðurnesjum vissu aldrei hvort þeir voru kredit megin eða debet megin við strikið? Kenndu þeir þetta ekki í stjórnunarnáminu? Við eigum að borga. Það er lágmark að fá að vita hverjum maður á að borga. Fram með myndaalbúmin. Setjum andlit á liðið.
kv
Ólína