SIGUR KVENFRELSISISNS
Nýafstaðnar kosningar voru merkilegar fyrir margar sakir. Framsóknarflokkurinn fékk falleinkunn hjá þjóðinni en hún situr uppi með stjórnmálaflokk sem hefur gefur lýðræðinu langt nef og tekur sér völd langt umfram vilja landsfólks. Vinstrihreyfingin – grænt framboð stimplaði sig inn sem þriðja stærsta stjórnmálaafl landsins og vinstrisveiflan er sjáanleg. Það er þó annað og meira en hin hefðbundna félagshyggja sem gerir fylgi við vinstri græn eins mikið og raun ber vitni. Flokkurinn hefur tekið upp á sína arma helstu verkefni framtíðarinnar, náttúruvernd og jafnrétti kynjanna. Hið framsýna fólk innan Vinstri – grænna veit að náttúruauðlindir má ekki fara með sem ódýran gjaldmiðil fyrir stundarhagsmuni, heldur vernda fyrir komandi kynslóðir. Vinstri – græn vita það líka að jafnrétti kynjanna er ekki í höfn og fæst ekki fyrr en kvenfrelsi er náð. Misréttið þrífst í hefðbundnu gildum sem hygla öðru kyninu á kostnað hins og átak þarf til breytinga.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram raunhæfar tillögur og sett þessa baráttu á oddin. Reyndar er hreyfingin eini stjórnmálaflokkurinn sem fléttað hefur kvenfrelsi inn í sína stefnu með afgerandi hætti. Þó að kosningabaráttan hafi að mestu snúist um hin karllægu gildi sem felast í endalausum umræðum um skipulagsmál þá voru áherslur VG greinilegar í gegnum alla baráttuna og var mikilvægi kvenfrelsis haldið hátt á lofti. Það er ekki síst að þakka þessum skilningi og baráttu fólks innan VG að flokkurinn náði árangri í kosningunum. Kvenfrelsissjónarmiðin eiga auknu fylgi að fagna og jafnvel er talað um að þriðja bylgja femínisma ríði nú yfir landið. Þennan aukna skilning á róttækum aðgerðum í jafnréttismálum verður að nýta til breytinga og VG er flokkurinn sem það hyggst gera. Úrslit kosninganna sýna það svo ekki verður um villst að VG hefur skyldum að gegna í kvenfrelsisbaráttunni sem flokkurinn mun axla. Femínistar kjósa VG.
Drífa Snædal ritari VG