Fara í efni

SMÁMUNIR EINS OG UMHVERFIS-MAT OG KYNJAPÓLITÍK

Á tímum sem þessum þarf að vanda sig verulega því orð eru dýr og gjörðir líka. Fólk er dofið, hrætt og lifir í óvissu með framtíðina og færri en oft áður eru í stakk búnir til að taka þátt í lýðræðilegri umræðu. Þetta er hættulegt ástand. Fólk er sofandi á verðinum, fjölmiðlum snarfækkar og allir prentmiðlar eru allt í einu komnir í eigu sama fólks sem með svo árangursríkim hætti hefur komið þjóðinni í skuldafangelsi til framtíðar. Aldrei hefur hins vegar verið mikilvægara að tala saman, skiptast á skoðunum, vanda til ákvarðana og veita stjórnvöldum aðhald.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég heyrði í álitsgjafa í Silfri Egils í gær segja eitthvað á þá leið að nú megi ekki eyða tíma í að koma á framfæri pólitískri sýn í kynjapólitík eða Evrópuhugsjón eða svoleiðis. Nú þurfi að bjarga landinu. Einmitt það já. Þetta eru þær raddir sem heyrast meðal fólks sem enn rígheldur í hugmyndakerfið sem nú er að hrynja. Fólk sem sættir sig ekki við að einmitt núna er þörf á nýrri pólitískri sýn - hin var ekki alveg að virka. Við megum ekki við því að ýta til hliðar kynjapólitík eða umhverfishugsjónum, núna eru þær aldrei mikilvægari. Annars eigum við það á hættu að í brjálæðisástandi sem krefst þess að EITTTHVAÐ sé gert, verði Þjórsá fórnað, Kárahnjúkavikjun seld og lögum um umhverfismat ýtt til hliðar til að kýla í gegn nokkrar álverksmiðjur.

Fólkið sem kallað er til, til að bjarga landinu frá gjaldþroti er eitthvað svo rosalega einsleitt. Yfirleitt karlmenn á miðjum aldri, fólk sem er samdauna þeirri hugmyndafræði sem ríkt hefur síðustu áratugi og kemur ekki með neina ferska eða nýja hugmynd að borðinu. Er ekki kominn tími til að hrista aðeins upp í feðraveldinu, hleypa fólki að með fjölbreytta menntun, af báðum kynjum, með mismunandi skoðanir til að koma okkur út úr ástandinu.

Við þurfum að verja gildin sem aldrei fyrr því ekkert er hættulegra en stjórnvöld sem láta öll prinsipp róa á ögurstund og sniðganga jafnvel lög til að þurfa ekki að hugsa um svona smámuni eins og umhverfisvernd eða kynjajafnrétti þegar alvöru mál eru annars vegar.
Drífa Snædal