Verkföll eiga að bitna á sem flestum
Jæja, byrja gömlu lummurnar – verkfallsvopnið er úrelt baráttutæki. Sveitarfélögin fara á hausinn ef gengið verður að kröfum kennara og yfirlýsing frá Seðlabanka Íslands og Hagfræðistofnun Háskólans um að alls ekki megi auka opinber útgjöld. Kennarar hafa það á samviskunni að grunnskólanemendur leggist í ólifnað og gott ef þau verði ekki fíkniefnaneytendur upp til hópa. Í samfélagi þar sem öll eiga að vera sjáfum sér næst er samtakamáttur ógn og ég tala nú ekki um þegar opinbert starfsfólk heimtar hluta af góðærinu. Það er ekkert sérstaklega trúverðugt að á sama tíma og talað er um skattalækkanir barma stjórnvöld sér mikið undan launakröfum kennara. Jú – það er vissulega rétt, ef á að lækka skatta er ekki hægt að hækka framlag til sveitarfélaga svo þau geti mætt kröfum kennara – þetta er því í grunninn alltaf spurning um forgangsröðun.
Kennarar eru útmálaðir sem heimtufrekjur og fólk sem álítur verkföll einhvers konar hópíþrótt sem gaman er að taka þátt í með reglulegu millibili. Í samfélagi þar sem verkalýðsfélög leggja ábyrgð á verkalýðsbaráttu á herðar einstaklinga og telja það sitt aðalverkefni að gera kannanir og bjóða námskeið í samningatækni skýtur verkfall vissulega skökku við. Verkfallsvopnið skal þó aldrei vanmeta. Stytting vinnutíma, almannatryggingar, veikindadagar og orlofsréttur næst ekki fram í einstaklingsbundnum viðtölum við forstjóra sem hafa vald til að hygla sér þóknanlegu starsfólki. Nei – slíkt næst aðeins fram með samtakamætti og verulegum þrýstingi launafólks. Verkfall er helsta vopnið í þeirri baráttu, hvort sem því er beitt eða ekki.
Þegar sest er að samningaborðinu verður að vera einhver þrýstingur til að semja. Einstaklingar geta ekki búið til þennan þrýsting nema í samtökum við aðra einstaklinga. Þó að til verkfalls komi örsjaldan miðað við umfang kjarasamninga þá er það yfirleitt undirliggjandi að því getur verið beitt. Þess vegna er samið. Til þess að ógnin sé til staðar verður að sýna að stéttir í kjarabaráttu eru tilbúnar til að beita því. Það hefur enginn gaman af því að fara í verkfall – það hlýtur alltaf að vera neyðarúrræði þegar því er beitt. Ef fólk í stéttarfélagi sýnir að það er ekki tilbúið til að beita verkfalli eru tennurnar farnar úr kjarabaráttunni. Þó að árangur verkfalla hafi oftar en ekki verið étin upp af verðbólgu hér áður fyrr skila verkföll þó því að atvinnurekendur vita af ógninni, og það kemur fram í kjarasamningum næstu ára.
Þegar um opinbert starfsfólk er að ræða vandast málið vissulega. Kennaraverkföll eru annars eðlis en til dæmis verkföll framleiðslufólks. Þegar færiböndin stöðvast vegna verkfalla tapa atvinnurekendurnir peningum. Þannig verður til beinn þrýstingur í krónutölum á atvinnurekendur að semja. Þetta eru yfirleitt öflugustu verkföllin. Þegar kennarar fara í verkföll græða atvinnurekendurnir peninga. Það þarf þá ekki að greiða starfsfólkinu laun á meðan á verkfalli stendur. Hver er þá þrýstingurinn? Þrýstingurinn hlýtur þá að koma frá nemendum og foreldrum sem er umhugað um nám sitt og barnanna sinna. Ég tala nú ekki um ef foreldrar hætta að geta stundað vinnu við færiböndin og atvinnulífið lamast. Ef fyrirtæki bjóða starfsfólki og börnum þeirra upp á gæslu og jafnvel nám á meðan verkfalli stendur dregur það úr þrýstingnum. Atvinnurekendur græða, börn geta lært og foreldrar stundað vinnu. Ef bankarnir og aðrir stórir vinnustaðir bjóða upp á barnagæslu óáreitt verður verkfallið lengra en ella. Þetta hlýtur fólk að skilja almennt, jafnvel menntamálaráðfrú sem finnst þetta allt í lagi, en hún er að sjálfsögðu að hugsa um skattalækkanir en ekki kauphækkanir.
Ef stjórnendum fyrirtækja er virkilega umhugað um að kjaradeilan leysist, pressa þeir á samningsaðila að semja en draga ekki úr áhrifum verkfalls. Verföll eiga nefninlega að bitna á sem flestum því þannig verða þau stutt og áhrifarík. Með því að draga úr áhrifum kennaraverkfallsins er verið að taka afstöðu með atvinnurekendum og gegn kennurum. Drífa Snædal