DV tekur afstöðu
Hans Blix yfirmaður kjarnorkueftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak hefur lýst því yfir að Bandaríkjastjórn hafi blekkt eftirlitsmennina og að ætla megi að árásin á Írak hafi verið löngu ákveðin. Af hálfu Bandaríkjamanna hafi eftirlitið verið sýndarleikur. Blix gekk miklu lengra í yfirlýsingum sínum og talaði um miklar mannfórnir og eyðileggingu landsins.
Ekki þarf að orðlengja að þetta eru mjög alvarlegar yfirlýsingar og hljóta að hafa áhrif á alla sem töldu sig vera í góðri trú um að full alvara væri að baki vopnaleitinni. Íslenskir ráðherrar hafa aftur og ítrekað vísað í vopnaleitina og mikilvægi hennar. Eftir að Hans Blix gaf framangreinda yfirlýsingu hafa menn gerst óþreyjufullir eftir því að íslenskir fjölmiðlar gengju á fulltrúa ríkisstjórnarinnar og óskuðu eftir því að hún tjáði sig um málið. Tilefnin eru ærin auk þessarar yfirlýsingar, fréttir af hörmungum og tortímingu, eyðilögðum vatnsbólum og ómetanlegu tjóni á menningarverðmætum, að ógleymdum öllum ósannindunum sem eru að koma upp á yfirborðið. DV reið á vaðið í fyrradag og tók utanríkisráðherrann á beinið – eða það héldu menn að stæði til. Annað kom á daginn.
Halldór Ásgrímsson kvaðst þakka guði fyrir að hér væri ekki her svo hann þyrti ekki sjálfur að senda hermenn í stríð en bætti síðan við : " Ég dáist hins vegar að mönnum eins og Tony Blair sem geta tekið slíkar ákvarðanir með yfirveguðum hætti." Halldór segir einnig að vissulega hafi verið deilt um það hvað gefa hefði átt vopnaeftirlitsmönnum SÞ langan tíma. Ekki var hægt að spyrja Halldór Ásgrímsson um yfirlýsingar Hans Blix, því þær voru að koma fram um svipað leyti og viðtalið fór fram, en í gær fjallar leiðarahöfundur DV um málið án nokkurs tillits til nýrra upplýsinga og tekur gagnrýnislaust undir ummæli ráðherrans.
Í leiðaranum segir að í bakhöndinni hafi alltaf verið hótun um að beita Íraka vopnavaldi og leiðarahöfundur vitnar síðan orðrétt í utanríkisráðherra:
""Hvað átti að bíða lengi? Það var búið að bíða í tólf ár. Átti að bíða í mánuð í viðbót, tvo mánuði eða tvö ár?" Halldór segir að þeirri spurningu verði aldrei svarað en telur, eftir því sem hann hugsar málið betur, að átök hefðu aldrei verið umflúin, jafnvel þótt það hefði verið beðið lengur og eftirlitsmönnum gefinn lengri tími." Og leiðarhöfundur tekur síðan sjálfur undir: "Það hafði verið beðið nógu lengi".
DV spurði ráðherrann og DV tók afstöðu. Það er í sjálfu sér þakkarvert. En byggðu spurningar blaðsins og í kjölfarið afstaða leiðarahöfundar á upplýsingum sem nú eru komnar fram um þennan mikla harnmleik?