Fara í efni

EFLUM HEILDARSAMTÖK LAUNAFÓLKS EN SUNDRUM ÞEIM EKKI


Í ágústhefti BHM tíðinda er fjallað um umræður sem nú fara fram á meðal hjúkrunarfræðinga um hugsanlega úrsögn úr BHM, bandalagi háskólamenntaðs fólks. Um þetta segir Halldóra Friðjónsdóttir formaður BHM í viðtali við BHM tíðindi m.a.: “Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) sem er stærsta aðildarfélag BHM samþykkti nú í vor að efna til atkvæðagreiðslu um úrsögn úr bandalaginu í september næstkomandi. Það væri mikill missir að hjúkrunarfræðingum og auðvitað munar bandalagið um fjórðung tekna sinna. BHM getur eftir sem áður veitt svipaða þjónustu ef stefnumótunin sem nú fer fram leiðir í ljós að það sé það sem aðildarfélögin vilja. Fíh er stórt og öflugt félag sem getur auðveldlega staðið á eigin fótum, en engu að síður er nauðsynlegt að félagsmenn ígrundi það vel hvort það þjóni heildarhagsmunum þeirra að vera utan samtaka. Auðvitað vona ég að hjúkrunarfræðingar leggi áætlanir um úrsögn á hilluna enda er ég sannfærð um að hagsmunum þeirra sé best borgið innan bandalagsins. Úrsögn Fíh úr BHM myndi veikja stöðu beggja aðila. „

Undir þessi orð vil ég taka og leyfi mér að vísa í viðtal sem birtist við mig í sama BHM blaði undir fyrirsögninni, Það hefði lítið hreyfst án heildarsamtaka. Í viðtalinu reyni ég að færa rök fyrir því að mikilvægi heildarsamtaka eigi enn eftir að aukast og vara við því að veikja þau – slíkt geti haft áhrif um ófyrirsjáanlega framtíð. Umhverfið sé nefnilega viðkvæmt og brothætt.

Í viðtalinu segir m.a.:

„… Nánast öll þau réttindi sem launafólk býr við eru tilkomin vegna baráttu og samstöðu heildarinnar. Einstök stéttarfélög hafa vissulega náð ýmsu fram varðandi kaupgjaldið og ýmis afmörkuð réttindi sem snúa sérstaklega að viðkomandi stétt. En hvað viðkemur lífeyrisréttindum, orlofsmálum, veikindarétti, fæðingarorlofi og öðru sem snertir okkur öll, þá hefði lítið hreyfst ef ekki hefði notið heildarsamtakanna. Þetta leyfi ég mér að fullyrða eftir að hafa fylgst náið með þessum málum um langan tíma. Hvað halda menn að gerst hefði með lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, svo dæmi sé tekið, þegar að okkur var sótt upp úr miðjum níunda áratug genginnar aldar og svo aftur uppúr miðjum þeim tíunda? Í báðum tilvikum átti að skerða kjörin stórlega. Þá voru það heildarsamtökin sem risu upp og afstýrðu stórslysi…“
„...Það yljaði okkur um hjartarætur hjá BSRB þegar flugumferðarstjórar gengu í samtökin nú nýlega og létu það fylgja með að þeir hefðu notið góðs af baráttu heildarsamtakanna í gegnum tíðina og vildu taka þátt í að fjármagna hana. Flugumferðarstjórar eru geysilega kröftugur hópur sem hefur getað spjarað sig ágætlega fyrir sinn hóp. Þeir vilja hins vegar taka þátt í baráttu heildarinnar og það þykir mér til marks um góð félagsleg viðhorf. Flugumferðarstjórar horfðu einnig til þess að utan heildarsamtaka höfðu þeir enga tryggingu fyrir aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Forsenda aðildar að LSR er nefnilega aðild að heildarsamtökum BHM, KÍ og BSRB. Þetta eru vörsluaðilar sjóðsins…“ …Ef heildarsamtök yrðu slegin af þá fullyrði ég að fækka myndi í verkalýðshreyfingunni þegar á heildina er litið því fámenn félög myndu veslast upp. Eflaust liði ekki á löngu þar til stærstu félögin færu að krunka sig saman um sameiginleg hagsmunamál og jafnvel mynda samstarfsvettvang. Sá samstarfsvettvangur heitir heildarsamtök! Í milltíðinn hefðu smærri félög dottið upp fyrir. Ef eihtthvað er að eða hefur farið úrskeiðis hjá heildasamtökum þá á að gera við það sem bilað en ekki eyðileggja þann grunn sem tekið hefur áratugi að skapa. Heimur stéttarfélaganna og samtaka launafólks er þegar allt kemur til alls mjög viðkvæmur eftir margra ára varnarbaráttu – þann heim á að umgangast af varúð og virðingu…
… Nú þegar félög eru að íhuga úrsögn úr heildarsamtökum finnst mér að þau eigi þvert á móti að íhuga hið gagnstæða: Stuðla að frekari sameiningu og örva þannig samrunaferli innan hreyfingar launafólks.
…Við höfum verið að efla samstarf á milli heildarsamtakanna innan almannageirans og tel ég það vera okkur öllum til hagsbóta.… Þetta held ég að verði framtíðin og sjálfum líst mér vel á þá framtíðarmynd að launafólk á Íslandi myndi allt í sameiningu ein heildarsamtök. Í þessa átt tel ég að við eigum að stefna. Í slíku samfélagi hefðu einstök stéttarfélög svigrúm og nytu sjálfstæðis en hefðu jafnframt með sér slagkraftinn af öflugri hreyfingu. … En byrjunarpunkturinn liggur ekki í framtíðinni. Hann er þar sem við stöndum nú. Hér og nú. Hlúum að því sem við eigum og byggjum jafnframt til framtíðar.“

HÉR má sjá viðtalið í heild sinni ásamt viðtali við Halldóru Friðjónsdóttur, form. BHM, um sama efni.