EFLUM VARNIRNAR
Birtist í 24 Stundum 02.10.08.
Fjárlög voru kynnt í gær. Þar er að finna útgjaldalið upp á einn og hálfan milljarð til nýrrar „varnarmálastofnunar". Ríkisstjórnin segist staðráðin í því að standa vörð um öryggi þjóðarinnar. Hún vilji meira að segja láta til sín taka á heimsvísu. Þess vegna sé til kominn þessi nýi peningagleypir, og þess vegna hafi hún sett nokkur hundruð milljónir í áróður og kaup á velvilja til að tryggja okkur setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Næst á dagskrá virðist vera íslensk leyniþjónusta og nýtt bákn í kringum hana á meðan almenn löggæsla er látin veslast upp.
Reyndar eru öryggismálin þjóðinni ofarlega í huga um þessar mundir. En ekki beinlínis í þessum farvegi. Fjármálakerfi landsins riðar eftir að við höfum verið „veðsett upp í rjáfur" eins og það var orðað svo myndrænt í fréttatíma. Við höfum fylgst með atganginum undanfarinn áratug eða svo. Þotur og milljarðatugir í eigin vasa. Þeir sem þannig fóru að ráði sínu voru fjárhirðarnir sem fengu ríkisbanakana afhenta fyrir nokkrum árum þegar fjármálakerfi landsins var einkavætt á einu bretti án þess að reistir væru múrar til varnar hagsmunum almennings. Pétur H. Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem mest hefur gagnrýnt það ráðslag að hafa peninga „án hirðis" fagnaði því mjög þegar ríkisbanakarnir voru einkavæddir og fengnir í hendur „alvöru fjárhirðum". Í umræðu á Alþingi sagði hann að markmiðið með sölu ríkisfyrirtækja og einkavæðingu, væri að „auka samkeppni á markaðnum vegna þess að fyrirtæki sem er ekki í ríkiseigu þarf að standa sig á eigin forsendum. Það getur ekki alltaf hlaupið í skjól hjá ríkinu. Þetta er meginmarkmiðið." Það er nefnilega það. Ekki orð um það meir.
Eða hvað? Eigum við kannski að reyna að læra af reynslunni? Á ríkisstjórnin að hætta við áform um að færa fjöregg þjóðarinnar, auðlindirnar, heilbrigðisþjónustuna og aðra grunnþjónustu samfélagsins út á fallvalt markaðstorgið? Gætu menn fallist á að fjárfestar haldi sig þar sem þeir eiga heima, þar sem við viljum að samkeppnislögmál gildi en fái ekki dýrmætar almannaeiginri til að braska með? Nú hefur það gerst að fjármálakerfið hefur þurft að leita „skjóls hjá ríkinu", gagnstætt því sem lagt var upp með. Verður þetta Sjálfstæðisflokknum tilefni til að endurskoða afstöðu sína og stefnu? Og hvað með Samfylkinguna? Hvort telur hún mikilvægara að koma íbúðaskuldurum til hjálpar í þeirri óðaverðbólgu sem nú geysar og efla varnir fyrir launafólk með því að þéttríða öryggisnet velferðarþjónustunnar, eða pumpa milljörðum inn í nýja hermálastofnun og setja heilbrigðisþjónustu landsmanna í hendur peningaaflanna?
Það er sannarlega áríðandi að efla varnir samfélagins. Þær varnir eru hins vegar af allt öðrum toga en þær sem ráðamenn eyða nú fjármunum, tíma og mannafla ríkisins í. Staðreyndin er sú að hugmyndafræði Péturs H. Blöndals og félaga er hrunin og hún tekur okkur öll með í fallinu ef við orkum ekki að byggja upp hinar raunverulegu varnir sem samfélagið þarf á að halda. Þær varnir snúast hvorki um Varnarmálastofnun, Öryggisráð né leyniþjónustu heldur um réttlátt samfélag jöfnuðar sem gefur ekki dýrmætustu eigur sínar á silfurfat græðginnar.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður