Fara í efni

EFTIRÁRÆÐUHÖLD

EPTIR A RADUHÖLD
EPTIR A RADUHÖLD

Gott er ef okkur auðnast að draga lærdóma af mistökum fyrri ára. Hver skyldu vera mestu mistökin? Ég hygg að það sé glámskyggni á samtímann. Gærdagurinn er að verða okkur ljós: Spilling, mistök, vanræksla, óheiðarleiki, valdníðsla og undirlægjuháttur.
Kannski er hann verstur. Undirlægjuhátturinn. Hann birtist í því að þora aldrei í valdið en glefsa í þá sem liggja. Ef við ætlum raunverulega að læra af martröð undangenginna ára þá breytum við öllu okkar vinnulagi. Við horfumst í augu við þetta, hver og einn þarf að horfa í eigin barm.
Stjórnmálamenn  þurfa að breyta vinnulagi sínu. Kerfið þarf að verða opnara og gagnsærra, stjórnmálin lýðræðislegri.
Eru þessar ábendingar of almenns eðlis? Eru þetta klisjur? Nei, þetta er kjarni málsins. Ef við ekki horfumst í augu við þessar grunnstaðreyndir þá breytist ekkert. Það dugar ekki að tala um ógagnsæi í gær og ástunda leyndarhyggju í dag. Það dugar ekki að gagnrýna innviði bankanna í gær en láta óátalið óhóf og óheiðarleika í dag. Það dugar ekki að gagnrýna einkavæðingu gærdagsins en hleypa einkafjármagni í dýrmætustu auðlindirnar í dag.
Ég er að tala um raunveruleikann. Leynd í samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, við eigum ekki að láta hann komast upp með setja okkur slíka kosti, ég er að tala um skilanefndir bankanna, ég er að tala um ógagnsætt eignarhald, ég er að tala um fólk sem ráðskast með aðra - og ég er að tala um fólk sem lætur ráðskast með sig. Ef þessu tekst ekki að breyta, þá fáum við aftur eftiráræðuhöld einsog þau sem við erum að hlusta á þessa dagana á Alþingi Íslendinga.