EFTIRLAUNAFRUMVARPIÐ: ENGAR BLEKKINGAR!
Sæll Ögmundur.
Ég vildi benda þér á blekkingarfrumvarp Samfylkingarinnar, sem nú er í bígerð. Það ætlar að rætast sem ég óttaðist: Boðað frumvarp Jóhönnu og Margrétar um skerðingu á eftirlaunum "æðstu manna"er fyrirlitleg blekking. Frétt af því má sjá hér:
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20061021/FRETTIR01/110210047/1091
Andstaða þjóðarinnar við eftirlaunalögin byggðist ekki á því að fyrrverandi ráðherrar gætu verið í fullu starfi og þegið jafnframt eftirlaun. Þann agnúa afhjúpuðu fjölmiðlar mánuðum eftir að lögin voru samþykkt. Andstaðan byggðist á forréttindahyggjunni sem grasseraði í frumvarpinu, eins og þú veist manna best. Það var af þeirri ástæðu - vonandi - sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði sér ferð niður í Alþingishús í desembermyrkrinu árið 2003. Hvar er hún núna? Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir eru að blekkja fólk, láta líta út fyrir að ásteytingarsteinninn hafi fyrst og fremst verið eftirlaun ráðherranna fyrrverandi sem eru í fullu starfi. Í því felst blekkingin. Markmið þeirra er að festa forréttindi sín í sessi undir fölsku yfirskini lagabótar. Formaður VG er samkvæmur sjálfum sér í málinu og tekur þessu ekki ólíklega. Steingrímur er til í tuskið. Það sem stendur upp á stjórnarandstöðuna er að taka höndum saman við heiðarlegt fólk í eigin röðum - ef það finnst - og spúla eftirlaunaóþverrann út. Ekkert hálfkák, enga uppgerð, engar blekkingar. Hér er uppkast að frumvarpi: Forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar njóti sömu eftirlaunaréttinda og aðrir opinberir starfsmenn. Þá er vel í lagt.
Sjá þetta: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1080247
Hjörtur Hjaratarson
Sæll Hjörtur og þakka þér fyrir bréfið. Ekki erum við ósammála í þessu máli sbr. ummæli mín um málið frá upphafi og nú síðast þegar þessi mál bar á góma á Alþingi á síðastliðnum vetri:
http://www.althingi.is/raeda/132/rad20060419T121713.html
Umræðan í heild:
http://www.althingi.is/altext/132/04/l19120407.sgml
Kv. Ögmundur