ÉG ER Í LIÐI GUÐS, ÞÚ SATANS
Egill Helgason hefur farið mikinn um fréttaflutning frá Sýrlandi síðustu daga. Hann komst að því eftir að reyndur blaðamaður sendi honum ábendingu að þeir sem ekki eru sama sinnis og almennt gerist skapi vísvitandi upplýsingaóreiðu svo réttsýnir menn missi sjónar á veruleikanum og glati trú á réttum málstað. (http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2018/03/12/upplysingaoreida/) . Þá nefnir Egill að hans upplýsingar séu fengnar frá áreiðanlegum heimildum - og nefnir nokkrar - en aðrir dreifi áróðri, séu handbendi þeirra sem véla um slíkt eða séu bara í ruglinu. Þeir séu annaðhvort illvirkjar eða nytsamir sakleysingjar.
Ætli tilfinning þeirra sem vildu verja hugmyndina um að jörðin væri flöt hafi ekki verið svipuð. Þegar upplýsingar sem ekki falla að kenningunni berast úr fleiri áttum skapast eflaust tilfinning um upplýsingaóreiðu þar sem allskonar rugl er borið á borð. Þá er brugðisti við með afneitun og ásökun um villutrú því heimildir okkar eru traustar en hinir blekkja. Við erum með Guð í okkar liði en hinir hafa Satan. Það eru víst þekkt viðbrögð að herðast í afstöðu sinni og afneitun eftir því sem meira blæs á móti.
Það eru margar sjálfstæðar heimildir til að véfengja túlkun hernaðarvelda vesturlanda um Sýrlandsstríðið. Viðbrögð þeirra Egils og Boga um að veröldin sé ekkert flóknari en Nató-línan gefur í besta falli til kynna einfeldningslega hugsun, en það er líka ákveðinn oflátungsháttur í því fólginn að gefa sér að þeir sem séu á annarri skoðun hljóti að vera annað hvort illa upplýstir eða innrættir. Það er allavega ekki sæmandi þeim sem sinna fréttaflutningi á ríkisfjölmiðli að byggja fréttamat og túlkun á slíku - þó e.t.v. sé ekki annars að vænta.
Árni V.