Fara í efni

ÉG HELD... AÐ SKÁLDIÐ HAFI NOKKUÐ TIL SÍNS MÁLS

Kristján Hreinsson, skáld, hefur birt greinar hér á síðunni, í dálkinum Frjálsir pennar, að undanförnu undir fyrirsögninni, Ég held... Síðast fjallaði hann um komandi borgarstjórnarkosningar og vildi að kannað yrði hvort þeir flokkar, sem nú mynda R-listann gætu ekki myndað kosningabandalag þannig að atkvæðin nýttust þeim öllum sameiginlega en færu ekki til spillis eins og hætt er við að gerðist ef engin tenging væri á milli þeirra. Ég vil lýsa stuðningi við þessa hugmynd.
Með kveðju,
Jóel

Sæll Jóel.
Ég þakka þér bréfið. Ég er sammála þér að takist ekki að endurnýja R-lista framboðið, sem ég hef stutt – og styð enn - að reynt verði að gera, þá væri rétt að bjóða fram með heitstrengingum þessara flokka um stjórnarsamstarf að loknum kosningum. Mér hefur fundist slæmt að kjósendur hafa aldrei getað gengið að því sem vísu með hverjum einstakir flokkar vildu starfa að loknum kosningum. Ef þessi lausn yrði uppi á teningnum þyrfti að skoða tæknilegar útfærslur af því tagi sem Kristján Hreinsson nefnir. Ég hvet kunnáttumenn til að skoða þetta nánar.
Kveðja,
Ögmundur