Fara í efni

ÉG HVET ALLA TIL AÐ KYNNA SÉR STEFNUSKRÁ EXBÉ

Stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík getur ekki talist upp á marga fiskana en fróðleg er hún engu að síður. Eflaust hefur vinnsla hennar kostað margar milljónir en framsóknarmenn hafa úr nægum peningum að spila enda bakhjarlarnir öflugir. Málefnin vantar hins vegar og að því leytinu er víst að úr vöndu var að ráða fyrir auglýsingastofuna. Þó kemur á óvart að hún hafi ekki getað gert örlítið betur fyrir flokkinn en raun ber vitni. Ekki tekst betur til en svo að hugmyndasmiðirnir skila til kjósenda berrössuðum flokki, hugsjónalausum og klyfjuðum sviknum loforðum. Þetta gera þeir m.a. með endurvinnslu á gömlum og innantómum slagorðum. Þá skreyta þeir plaggið með stolnum fjöðrum úr smiðjum annarra framboða, stundum bregða þeir einfaldlega á leik sér og öðrum, nema þá kannski einhverjum framsóknarmönnum, til nokkurrar skemmtunar. Og þegar allt um þrýtur gefa þeir loforð um merkilegar framkvæmdir en sem þegar eru orðnar að veruleika. Hér á eftir verður stiklað á stóru til frekari kynningar á stefnuskránni og ofangreindum niðurstöðum til stuðnings.

Hvaða fjölskylda verður í fyrirrúmi?

Í stefnuplagginu getur að líta gömul slagorð framsóknarmanna, nánast óbreytt. Nú er eitt slagorðið “Fjölskyldan í fyrirrúmi” en var fyrir nokkrum árum “Fólkið í fyrirrúmi”. Þessi lélega endurvinnsla er að því leyti heppileg fyrir kjósendur að auðvitað er flestum ljóst hvaða fólk hefur verið í fyrirrúmi ríkisstjórnar Framsóknarflokksins á undanförnum 11 árum. Á þeim tíma hefur þjóðareignum og peningastöbbum verið hlaðið undir fámennan hóp einstaklinga sem má svo sannarlega þakka guði fyrir að nú fer peningasýsl allt og viðskipti fram með rafrænum hætti en ekki með seðlum. Án þeirra merku umskipta væri þetta moldríka dekurlið ríkisstjórnarinnar allt orðið meira og minna bilað í baki af peningaburði, svo mikil eru auðæfi þess orðin. Í dekurdúkkuliðinu eru m.a. ýmsir úr gömlu SÍS-klíkunni og líka miklir flokkshestar úr innsta hringnum. “Fjölskyldan í fyrirrúmi” Framsóknar getur því vart verið önnur en hin hamingjusama SÍS-familía. Og ef vel tekst til hjá framboðinu í komandi kosningum getur flokkurinn kannski fært henni Orkuveitu Reykjavíkur á silfurfati.

Verður grettistaki lyft í þágu aldraðra?

Þá hafa hugmyndasmiðir auglýsingastofu EXBÉ skroppið í smiðjur annarra framboða og kroppað þaðan ýmsa mjúka bita en sem engin innistæða er fyrir hjá Framsóknarflokknum eins og reynslan hefur þráfaldlega sýnt. Þó verður ekki sagt að verktökunum hafi verið alls varnað við stefnuskrársmíðina, að minnsta kosti verður stundum ekki hjá því komist að hlæja að allri vitleysunni sem þarna er saman dregin. Auðvitað hafa starfsmenn stofunnar gripið til þess ráðs að gantast aðeins við hina snúnu vinnu til að forðast kulnun í starfi og atvinnumissi. Ég sé t.d. aumingja fólkið fyrir mér létta sér lundina og jafnvel hlæja aðeins eftir að hafa sett saman slagorðið um “Áhyggjulaust ævikvöld - þverpólitískt átak" í þágu aldraðra. Með þessum orðum gefur Björn Ingi Hrafnsson, borgarforingi framsóknarmanna og aðstoðarmaður forsætisráðherra, sterklega til kynna að nú eigi að tækla framsóknarráðherrana rækilega og ríkisstjórnina alla sem í rúman áratug hefur lagt margt gamalt fólk í einelti – já, alið á “óhamingju” þess eins og Guðni Ágústsson ráðherra Framsóknar og varaformaður flokksins orðaði það svo skemmtilega í Morgunblaðsviðtali á dögunum. Þyrnirós er greinilega risin úr rekkju en flestir  vita að því miður sofnar hún aftur djúpum svefni, strax að loknum kosningum. Og í ljósi alls þessa - er nema von að spurt sé: er mark takandi á svona fólki og svona framboði sem veifar framan í fólk öðru eins stefnuplaggi og þessu. Svarið er að sjálfsögðu neitandi.

Mun þjóðin sættast á Lönguskerjum?

Orðið þjóðarsátt hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá Framsóknarflokknum og einkum hafa forkólfarnir til þess gripið þegar um mjög umdeild mál hefur verið að ræða. Í því sambandi má m.a. minna á kvótakerfið í sjávarútveginum sem hefur fært ýmsum einstaklingum aldeilis drjúga búbót fyrirhafnarlaust, og þar á meðal núverandi forsætisráðherra. Og EXBÉ-arnir, eins og þeir kalla sig nú, geta auðvitað ekki leynt uppruna sínum þótt ætla megi að þeir telji jafnvel farsælast að kannast sem minnst við flokkinn í kringum yfirvofandi kosningar. “Þjóðarsátt um flugvöllinn í Reykjavík" á Lönguskerjum er eitt kjörorð þeirra, slagorð um mjög umdeilt mál sem mun kljúfa borgarbúa í andstæðar fylkingar. Já, þeir hika ekki við að boða þjóðarsátt um svona málefni sem ofan á allt er engan veginn fullkannað og þar á meðal að því er varðar flugöryggi, umhverfisáhrif, kostnað og hagkvæmni. Er virkilega hægt að láta sér detta í hug þjóðarsátt um mál sem svona er vaxið? Auðvitað dettur engum heilvita manni slík fásinna í hug og framsóknarmenn eru jafn trúverðugir í þessum efnum sem öðrum.

Skautasvell á Perlunni

Svo eru í stefnuplagginu ýmsar rósir innan um sem vekja vonir okkar um fagran og skemmtilegan borgarbrag. Til að mynda vilja framsóknarmenn koma fyrir, eins og það er orðað, skautasvelli “á Perlunni”. Auðvitað væri út af fyrir sig gaman að sjá borgarforingjann og félaga vígja svellið á perlukúlunni, spreyta sig þar og leika sínar listir við háskalegar aðstæður. Ekki er ég þó svo illa innrættur að vilja horfa á þá félagana skaða sig en það mundu þeir örugglega gera ef þeir fengju einhverju ráðið um svo óheppilegt staðarval fyrir skautaíþróttina. Svo er það auðvitað stór spurning hvort réttlætanlegt sé að eyða fjármunum borgarbúa í þvílíkan háskaleik í þágu örfárra einstaklinga.

 Svokallaðir ljósastaurar og sjóminjasafn

Loks vil ég drepa á tvö atriði sem ég veit ekki fyrir víst hvort ímyndarhönnuðir auglýsingastofunnar gerðu sér til skemmtunar, eða af vanþekkingu einni saman, að setja inn í stefnuskrána svokölluðu loforð um málefni sem þegar hefur verið unnið dyggilega að á vegum borgaryfirvalda og þarfnast engrar sérstakrar endurvinnslu. Þannig boðar Framsóknarflokkurinn nú “sjóminjasafn á Grandagarði”, safn sem var formlega opnað með pompi og prakt fyrir ári síðan, einmitt á þeim stað sem Framsóknarframboðið telur ákjósanlegan. Þeim mun meira kemur þetta á óvart þar sem forstöðumaður Sjóminjasafnsins heitir Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar, en stöðuna fékk hún að sjálfsögðu án þess að borgaryfirvöld létu svo lítið að auglýsa starfið. Þetta hefðu nú Björn Ingi og félagar átt að vita en þeir hafa kannski ekki lesið stefnuskrána nægilega vel enda í mörg horn að líta þessa dagana.
Framboðið býður einnig upp á þá markverðu nýlundu að “lýsa upp miðborgina”! Ég hélt satt að segja að flestum væri ljóst að þar eru ljósastaurar á hverju strái og hafa bæjaryfirvöld unnið að þessu nauðsynlega verkefni allar götur frá því skömmu eftir 1870, ef ég man rétt. Fyrst voru þetta steinolíuljósker en upp úr aldamótunum tók raflýsingin við og allar götur síðan hefur verið stöðug uppbygging á þessu sviði. Og þar sem ég vann forðum tíð hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og tók beinan þátt í þessu starfi get ég veitt Birni Inga og félögum ýmsar frekari upplýsingar hér að lútandi, ef áhugi er fyrir hendi. 

 Velheppnuð nektarmynd

Því miður fyrir EXBÉ, en sem betur fer fyrir borgarbúa, tókst auglýsingastofunni ekki betur upp við stefnuskrársmíðina en svo að í henni birtist ágætlega heppnuð nektarmynd af Framsóknarflokknum. Nánast eina hugmyndin sem mér finnst virkilega snjöll hjá ímyndarfræðingunum, og segir mér að þarna eru engir viðvaningar á ferð, er að nefna framboðið EXBÉ. Sú nafngift leiðir hugann strax að þeim ágæta banka, KB, og hélt ég reyndar fyrst að þarna væri um að ræða eitthvað dótturfyrirtæki hans í fjármálalífinu. Þetta kemur mjög vel út. Með því að auglýsa EXBÉ í gríð og erg á næstu vikum - í blöðum, útvarpi, sjónvarpi og út um allar koppagrundir - fær bankinn vitanlega um leið prýðilega, óbeina kynningu. En KÁBÉ er einmitt, ef að líkum lætur og ef ég þekki "mína menn" rétt, einn af hinum sterku bakhjörlum EXBÉ  -  framboðs Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Þjóðólfur