Fara í efni

ÉG MANA ÞIG...

Lengi hef ég litið svo á að þú værir prinsip maður sem hugsaðir fyrst og talaðir svo. Ég lít svo á að þú hafir festu og trú og sért tilbúin að standa á bak við sannfæringu þína og eins og þú hefur sjálfur sýnt fram á, gefið upp ráðherrastól til að standa bak þinna orða og sannfæringar. Ég hef ekki kosið þinn flokk, en hefði kannski kosið þig ef persónukosning væri leyfð. Ég er hinsvegar orðin annsi efins um að það að þú standir alltaf heill á bak við margt af því sem þú gerir.
Ástæðan fyrir þeirri skoðun minni er sú að miðað við málflutning þinn á framlagningu nýju frumvarpi til barnalaga, heyrist að bæði þekkir þú málefnið lítið og einnig hefur þú gefið öðrum tækifæri á að móta þína skoðun, án þess að þú hafir að fullu kynnt þér málið nægjanlega vel. Þú átt þann séns núna í mínum huga að endurskoða afstöðu þína, og kynna þér málið betur, hafa samband við þá hópa í þjóðfélaginu sem þekkja best til þessara mála. Mælist ég til þess að þú talir við fyrverandi dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur, því hún setti sig talsvert vel inn í þennan málaflokk og skilaði af sér góðu frumvarpi, sem allt lítur út fyrir að þú berir ábyrgð á að sé annað í dag en það var.
Sú vinna sem núna fjórar nefndir, fjölmargir einstaklingar og þrotlaus vinna sérfræðinga ásamt skýrum niðurstöðum frá DK og SE og NO varðandi málefni barna sem lenda í skilnaði eru óvéfengjanlegar og allar sammála. Að segja annað er ósatt.
Ég geri þær kröfur til þín og þinnar samvisku að þú setjir þig inn í þessi mál, talir við þá hópa í samfélaginu sem þessi málefni þekkja. Ég tel að um leið og þú kynnist þeirri stöðu sem þeir einstaklingar (MÆÐUR OG FEÐUR OG BÖRN) eru í dag á Íslandi þá sjáir þú hversu alvarlegt vandamál þetta er og hversu margir líða fyrir það. Það er fyrir löngu búið að sýna fram á hvernig eigi að leysa stóran hluta þessara vandamála og gamla frumvarpið hennar Rögnu notaðist við meiripartinn af þeirri reynslu, rannsókum nágrannaþjóða okkar. Íslendingar eru í engu öðruvísi en Norðurlandaþjóðir og eigum þarafleiðandi ekki að komast að annarri skoðun en þau lönd.
Ég get mætt á fund hjá þér og sagt þér nokkrar dæmisögur til að lýsa fyrir þér hvernig vandamálin eru í hnotskurn, en um leið og þú heyrir þær sögur, þá verður þér ljóst að fáránleiki skáldsagnana er ekki nærri eins fáránlegur og raunveruleikinn. Ég treysti því að þú látir ekki sterk öfl innan þíns flokks viðhalda mannréttindabrotum í siðmenntuðu landi. Ég treysti því að þú sért maður með meiru og sért tilbúin til að kynna þér málið til hlýtar og fara mót sterkum öflum ef það leiðir til mannréttindabóta á Íslandi.
Börnin eru mörg sem þurfa á þér að halda og foreldrarnir eru allir kjósendur í dag....þú ert sá sem hefur tök á að breyta rétt og munt á endanum bera ábyrgð. Ég á ekki von á að þú hafir löngun í að upplifa þá sorg sem ég hef í mínu hjarta vegna réttarfarslegs brots sem þjóðfélagið hefur valdið á mínu barni. Björn Bjarnason hóf vinnuna og þú skalt vera maður til að ljúka henni með sóma. Ég mana þig til þess. Þér er velkomið að óska eftir fund með mér, ef þú telur þurfa.
Birgir Grímsson

Sæll Birgir
Þú talar greinilega af biturri reynslu með sorg í hjarta eins og þú lýsir sjálfur. Ég vil virða tilfinningar þínar en leyfi mér hins vegar að leiðrétta rangfærlsur þínar. Þú heldur því fram að ég hafi ekki kynnt mér þessi mál. Þetta er rangt því það hef ég gert. Þá er það rangt hjá þér að ég sé leiksoppur annarra sem stjórni skoðanamyndun minni í þessu máli. Auðvitað er ég opinn fyrir sjónarmiðum annarra, rökum og reynslu og reyni ég að leggja mig eftir því að skoða málin frá fleiri en einum sjónarhóli.
Mín sýn er þessi: Í grundvallaratriðum er það mín skoðun að börn eigi rétt á umgengni við báða foreldra sína og báðir foreldrar eiga að hafa umgengni við börn sín. Þannig er því sem betur fer yfirleitt farið. En ekki alltaf. Stundum er ósætti milli foreldra sem skilin eru að skiptum og kemur sú staða þá stundum upp að öðru foreldri, yfirleitt föður, er meinað af hinu foreldrinu, yfirleitt móður, að umgangast börnin. Þegar þannig háttar til endar málið stundum fyrir dómi. Það er slæmur kostur og gengur umrætt nýframlagt lagafrumvarp út á að efla sáttameðferð þar sem þess er freistað að ná fram sátt um fyrirkomulag umgengni án þess að deilumálið fari fyrir dóm.
Við þetta sáttaferli bindum við flest miklar vonir og efast ég ekki um að þar erum við sammála. Engu að síður er ljóst að ósætti getur verið svo mikið - af einhverjum ástæðum - að sátt náist ekki.
Þá er komið að ágreiningsefni okkar, hvort veita eigi dómara vald til þess að kveða upp dómsúrskurð um sameiginlega forsjá.
Það er ekki rétt hjá þér að reynsla Norðurlandaþjóðanna sé á þann veg að einhugur sé um að dómar um þvingaða forsjá beggja foreldra hafi oftar en ekki verið til góðs. Þetta er þvert á móti mjög umdeilt mál og eru þess mörg dæmi að þessi niðurstaða hafi beinlínis verið börnum mjög skaðleg og til ills og að réttarkerfið á Norðurlöndum hafi ekki reynst nægilega vakandi yfir vandanum og þá einnig ábyrgð sinni.
Ég hef fylgst með mjög erfiðum málum hvað þetta snertir, þar sem mér finnst beinlínis brotið á mannréttindum barna. Þar er um það að ræða að faðirinn hefur beitt fjölskylduna ofbeldi, andlegu eða jafnvel líkamlegu, sem dómarar hafa hreinlega horft fram hjá. Þetta er hins vegar sérstaklega erfitt að ræða því góðir og sanngjarnir feður (sem stundum eiga í deilu við ósanngjarnar mæður) finnst þeir sitja uppi með ásakanir um að einnig þeir séu ofbeldismenn. Þess vegna veigra menn sér oft að ræða þennan þátt málsins opinskátt þótt hann sé undirliggjandi.
Ef ég treysti réttarkerfinu til að takast á við þessi mál með alltsjánandi auga réttsýninnar væri afstaða mín önnur. Það geri ég hins vegar ekki þegar þessi mál eru annars vegar - enn sem komið er. Einmitt þess vegna hvet ég til kröftugrar en málefnalegrar umræðu um þetta mikilvæga mál.
Ögmundur Jónasson