ÉG SKIL ÞAU EN OKKUR SKIL ÉG SÍÐUR
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 26/7.03.22.
Íslendingar stæra sig iðulega af því að vera herlaus þjóð – og friðsöm er gjarnan bætt við. Herlaus þjóð sem sendir annarra þjóða ungmenni á vígvöll er varla til að bera virðingu fyrir. Reyndar erum við að færast nær því að vera hvorki friðsöm þjóð né herlaus því áralöng þátttaka Íslendinga í hernámi Afganistans, sem skildi það land eftir í fullkominni rúst, var bein þátttaka í hernaðarsamvinnu og aukin hernaðarumsvif á Keflvíkurflugvelli eru að sjálfsögðu af sama toga. Fundir á vettvangi NATÓ og yfirlýsingar í tengslum við þá staðfesta síðan svo ekki verður um villst hvert stjórnmálaflóran öll er komin.
Og leyfist að spyrja, hvenær fram hafi farið opinber umræða um hvort Íslendingar ættu að taka þátt í sameiginlegu herliði, Joint expeditionary force, sem fundað var nýlega um í Englandi í boði Boris Johnson, forsætisráðherra Breta? Þegar að er gáð gerðust Íslendingar formlega aðilar að þessari hernaðarsamvinnu síðastliðið vor og í febrúar var ákveðið að hefja heræfingar á vegum þessa samræmda herstyrks. Allt fór þetta fremur hljótt eins og margt annað.
Fréttir berast nú frá NATÓ um áform um stóraukna hervæðingu austanverðrar Evrópu og er þá gengið út frá því að því meiri vopnabúnaður þeim mun meiri friður. Ekki áfellist ég nágranna Rússa fyirir að vilja vígbúast í ljósi yfirgangs og ofbeldis sem þeir sættu á öldinni sem leið að ekki sé minnst á það sem nú er að gerast í Úkarínu. Ég skil þau. En síður okkur og framgöngu NATÓ ríkjanna sem er á góðri leið að verða óleyfilegt að ræða. En það verður þó að gera. Í húfi er framtíðin. Viljum við heim sem byggir tilveru sína á vígbúnaði; heim sem undirgengst yfriráð þeirra sem búa yfir vopnavaldi og skirrast einskis til að tryggja eigin hagsmuni? Þetta kennir sagan að gerist ef ekki er spyrnt á móti, ekki bara löngu liðin saga heldur saga síðari tíma. Og hér er ekki horft eingöngu til hervelda í austri, Rússlands, Kína, Japans heldur ekki síður, jafnvel miklu fremur, til NATÓ ríkjanna, gömlu nýlenduveldanna auk að sjálfsögðu Bandaríkjanna sem eru leiðandi afl í NATÓ.
Og nú þarf að spyrja hvert hlutverk Íslendingar ætla sér í heimi sem er að tapa áttum. Rússar fremja stórfellda stríðsglæpi í Úkraínu og Bandaríkjamenn ræða í alvöru hvort þeir eigi að senda þangað eldflaugar til að svara í sömu mynt. Biden forseti lýsir samhliða áhyggjum yfir að Rússar kunni að beita efnavopnum. Það er hryllileg tilhugsun en líka sú að það var þessi sami Biden sem tók þátt í að segja ósatt um gereyðingarvopn Íraka til að fá ástæðu til að ráðast inn í Írak eftir að hálf milljón barna höfðu látið lífið af völdum efnahagsþvingana Bandaríkjanna og bandamanna þerra. Allt til að ná sér í olíu.
Ég var fjórtán ára í Kúbudeilunni svokölluðu. Að undirlagi Bandaríkjanna var gerð innrás á Kúbu til að steypa Castro sem áður hafði losað þjóð sína undan einræðisherranum Batista. Kúbumenn vildu vörn gegn frekari árásum og Sovétmenn vildu komast nær skotmörkum í Bandaríkjuum. Margir höfðu samúð með Kúbumönnum sem stóri granninn beitti þvingunum og ofbeldi til að koma lepp sínum til valda að nýju.
En Kúba er 150 kílómetra frá Flórida. Allir heimurinn skildi að það gat ekki gengið að koma þar upp kjarnorkuvopnum óvinveitts ríkis. Kennedy Bandaríkjaforseti sagði að gripið yrði til allra ráðstafana til að stöðva vopnaflutninga Sovétmanna. Við skildum öll hver alvara var á ferðum. Ég man eftir hræðslutilfinningunni. Aðeins sautján ár voru þá frá því að Bandaríkjamenn drápu mörg hundruð þúsund óbreytta borgara með kjarnorkusprengjum sem þeir vörpuðu á Hiroshima og Nagsaki í Japan. Og á þessum tíma og fram á þennan dag segja þeir að þetta hafi verið réttlætanlegt.
Lausnin á Kúbudeilunni fólst í því að draga úr vígbúnaði. Sovétmenn hættu við að koma upp kjarnorkuflaugum á Kúbu og Bandaríkjamenn tóku niður kjarnorkuflaugar sem þeir höfðu nýsett upp í Tyrklandi við landamæri Sovétríkjanna.
Og nú er aftur ástæða til að hræðast. Og aftur þarf hið sama að gerast: Draga þarf úr vígbúnaði, ekki bæta í. Það eru alveg nógir til að gerast málsvarar hergagnaframleiðenda án þess að Íslendingar skipi sér í þann kór.
Erdogan Tyrklandsforseti segist vilja tala um fyrir Rússum til að stöðva ofbeldið. Hann gæti sýnt friðarvilja sinn í verki með þvi að stöðva árásir eigin hers á fjallaþorp í byggðum Kúrda í Írak og einnig í norðanverðu Sýrlandi. Þessar árásir eru þar daglegt brauð og er Tyrklandsher sakaður um að beita efnavopnum.
Það er af nógu að taka ef kveða á niður ofbeldisöfl heimsins. Við eigum að standa með fórnarlömbum eins og við frekast getum en á okkar forsendum; veita skjól og taka opnum örmum öllu því fólki sem verður drápstólum herníðinga að bráð. Herníðinga eigum við svo að kalla réttum nöfnum, ekki bara suma heldur alla.