EGILL OG GUÐLAUGUR ÞÓR Á SKRAFI
Svokölluð drottningarviðtöl hafa færst í vöxt í seinni tíð á sjónvarpsrásunum. Davíð Oddsson ruddi brautina en þegar leið á forsætisráðherratíð hans tók hann upp á því að neita að mæta í viðtöl nema hann fengi að vera einn. Slík viðtöl geta vissulega átt rétt á sér en þau gera þá miklar kröfur til þáttastjórnandans. Egill Helgason er farinn að tíðka slík viðtöl í þætti sínum Silfur Egils í Sjónvarpinu. Stundum ræðir hann við einstaklinga sem hafa fram að færa snjallar hugmyndir. Ekkert er nema gott um slík viðtöl að segja.
En Egill lætur ekki þar við sitja. Hann er nefnilega líka í gamla Davíðs-drottningarfarinu. Þá leyfir hann ráðherrum, sem ekki treysta sér til að mæta starfssystkinum úr þinginu að baða sig einum. Athygli vakti í Silfrinu í gær að Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mætti galvaskur og stóð fyrir sínu máli m.a. gagnvart Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG. Ekki kom þetta mér sérstaklega á óvart því Bolvíkingurinn er með sjálfstraustið í lagi og trúaður á sinn málstað.
Stundum hafa vaknað hjá mér efasemdir um að einkavæðingarmálaráðherra heilbrigðismála, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi sannfæringu fyrir verkum sínum. Þetta ræð ég af því að Guðlaugur Þór, sem nú forðast viðræður við pólitíska andstæðinga sem heitan eldinn, hefur til þessa verið hinn vaskasti bardagamaður, hvergi banginn. Eftir að Guðlaugur Þór fór að bjóða út störf á Landspítalanum hefur hann gerst ljósfælinn. Alltaf þegar ráðerrann hefur auglýst nýjar deildir eða nýja starfsemi til útboðs mætir hann í fréttatímana til að lýsa því einhliða yfir að þetta hafi ekkert með einkavæðingu að gera. Hvílíkur misskilningur! Já hvílíkur misskilningur, át Egill, þáttastjórnandi upp í drottningarviðtalinu á sunnudag. Þetta hefur allt verið til góðs, er það ekki Guðlaugur Þór? Sóltún og allt það? Jú, allt af hinu góða svaraði einkavæðingarmálaráðherrann og ók sér makindalega í drottningarhásæti Silfursins.
Heima við sóttu eflaust ýmsar hugsanir á ræstitæknana sem voru einkavæddir fyrir nokkrum árum og við það dregnir niður í kaupi og kjörum. Og læknaritarana sem eru komnir með störfin sín í óvissu. Eða hjúkrunarfólkið á deildinni á Landakoti sem boðin var út með manni og mús í raðauglýsingum Morgunblaðsins fyrir fáreinum dögum. Og hvað skyldi ríkisendurskoðandi hafa hugsað, sem fyrir ekki svo ýkja löngu sendi frá sér rannsóknarskýrslu með þeirri niðurstöðu að hlutafélagavædd dvalarheimili fyrir aldraða væru skattborgaranun dýrari en sjálfseignarstofnanir og almannarekin þjónusta því greiða þyrfti hluthöfunum arð - já hvað skyldi hann hafa hugsað?!
Ekkert af þessu komst að í skrafi þeirra Egils og Guðlaugs Þórs enda þurfti ráðherrann aldrei að svara fyrir nokkurn skapaðan hlut. Hjá Agli Helgasyni malaði Guðlaugur Þór eins og vel haldinn heimilisköttur. Ekkert var til að minna á að ráðherrann stendur fyrir einhverjum umdeildustu kerfisbreytingum í íslenska heilbrigðiskerfinu um áratugaskeið.
Er farið að falla á silfrið Egill?