EIGUM NÓGA FREKJU FYRIR!
Þú segir Costco af hinu illa og viljir þessa verslunarkeðju ekki til Íslands. Er Costco nokkuð verri en aðrar keðjur? Sumir halda því fram að hún sé jafnvel skárri en margt annað. Alla vega ekki sú versta. Ég sé í kommentakerfi á netmiðlunum ( http://www.dv.is/frettir/2014/7/5/ogmundur-um-costco-thessi-throun-hefur-ekki-studlad-ad-fjolbreytni/) að margir telja Costco góða keðju. Svar óskast!
Guðmundur Jónsson
Það sem fer fyrst og fremst illa í mig er frekjan í eigendum og forsvarsmönnum Costco, sem heimta að lögum sé breytt í landi sem þeir vilja ryðja sér til rúms í, samanber kröfur þeirra um að fá heimild til að flytja inn hrátt kjöt og selja lyf og brennivín þvert á þær reglur sem við höfum sett okkur.
Auðvitað þekkjum við sams konar frekju hér heima. Mér finnst hins vegar ekki á hana bætandi. Það er fullkominn óþarfi að flytja inn bandaríska bisnisfrekju. Við eigum nóg af henni fyrir.
Kv.,
Ögmundur