Eimskipafélagið – einkavæðing og gamall Morgunblaðsleiðari
Birtist í Morgunblaðinu 04.08.04.
Skýrt hefur verið frá því að frá og með 1. desember næstkomandi muni Eimskipafélag Íslands, dótturfélag Burðaráss, hætta strandsiglingum í kringum Ísland. Í tilkynningu um afkomu Burðaráss segir að þess sé vænst að þessi aðgerð komi til með að skila félaginu 300-400 milljón króna hagræðingu á ársgrundvelli. Einnig kemur fram að uppsagnir 40-50 starfsmanna á skrifstofu Eimskipafélagsins fyrr í þessum mánuði muni koma til góða í hagræðingarskyni og sé reiknað með að alls nemi sparnaðurinn 200-250 milljónum á ársgrundvelli.
Mikið vill meira
En skyldi Eimskipafélagið vera á vonarvöl? Ekki er svo að skilja því félagið hefur upplýst að hagnaður fyrir afskriftir á árinu 2004 sé áætlaður u.þ.b. 2300 milljónir og gert er ráð fyrir að afkoma ársins 2005 verði um 3000 milljónir og um 3500 milljónir árið 2006.
Þegar Skipaútgerð ríkisins var lögð niður árið 1992 átti Morgunblaðið vart nógu sterk orð til að lýsa hve góð sú ákvörðun var og hinn 24. mars það ár varð þetta leiðarahöfundi blaðsins tilefni til þess að staðhæfa að einkavæðing strandsiglinga myndi " tryggja nauðsynlega þjónustu eftir hagkvæmustu og ódýrustu tiltækum leiðum. Og létta jafnframt áhætturekstri og oftar en ekki taprekstri af ríkissjóði og þar með skattgreiðendum"
Í umræðum á þingi á þessum tíma kom fram að miklum fjármunum hefði verið varið til strandsiglinganna og uxu ýmsum þær upphæðir mjög í augum. Umræðan um þennan þátt málsins var þó afar yfirborðskennd. Þannig einblíndu menn á kostnaðinn við siglingarnar og töldu sig lausa allra mála eftir að Skipaútgerðin yrði lögð af. Þar gleymdist að geta þeirra fjármuna sem augljóslega yrði að setja í vegakerfið eftir að þungaflutningar færðust upp á landið. Með ákvörðun Eimskipafélagsins nú er ljóst að álagið á vegakerfið mun enn aukast. Þjóðhagslega kann þessi ákvörðun að hafa alvarlegar afleiðingar.
Í fyrrnefndum leiðara voru litlar efasemdir um að einkavæðingin væri til hagsbóta fyrir neytendur og samfélagið allt: "Svo er að sjá sem samgönguráðherra hafi haldið svo á þessu máli, að samfélagið hljóti af nokkurn hag. Af ríkissjóði hefur verið létt verulegum útgjöldum, án þess að þjónusta hafi skerzt. Vonir standa og til að samkeppni Eimskips, Samskipa og annarra, sem strandsiglingar stunda, muni svara eftirspurn neytenda…Flest bendir því til þess að einkavæðing strandsiglinga muni takast vel".
Þarna reyndist leiðarahöfundur ekki sannspár og eina ferðina enn hefur sannast að vafasamt er að setja jafnaðarmerki á milli hagsmuna einstakra fyrirtækja annars vegar og þjóðarhags hins vegar. Af þessu má leiða annað og meira: Það er misskilningur að leggja dæmið upp sem "taprekstur" einsog leiðarahöfundur gerði forðum. Markmið fyrirtækis og samfélags þarf ekki að vera hið sama. Þannig getur samfélag tekið ákvörðun um að halda uppi þjónustu sem fyrirtæki sæi sér ekki hag í. Ennfremur getur þjóðarhagur krafist annarra lausna en eru á færi einstakra fyrirtækja.
Frumkvæði Jóns Bjarnasonar
Fyrir nokkru síðan fór Jón Bjarnason fyrir okkur þingmönnum VG og flutti þingsályktunartillögu um að rækileg úttekt yrði gerð á strandsiglingum við Ísland með það fyrir augum að efla þær. Þingmálinu var vísað til ríkisstjórnarinnar. Hún hefur hins vegar ekkert aðhafst í málinu eftir því sem ég kemst næst. Hins vegar hef ég fyrir satt að Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra hafi ekki verið skemmt þegar honum voru færð tíðindin af ákvörðun Eimskipafélagsins nú.
Einu sinni var talað um Eimskipafélagið sem óskabarn þjóðarinnar og talsmönnum þess varð tíðrætt um ábyrgð þegar um heildarhagsmuni þjóðarinnar væri að ræða. Ekki þekki ég félagslega samvisku Eimskipafélagsins í gegnum tíðina til að dæma þar um. Hitt er ljóst að á því búinu er nú fyrst og fremst hugsað um að hámarka hagnaðinn.
Nú þarf að byrja upp á nýtt
Nú eru hins vegar góð ráð dýr. Íslendingar hafa varið miklum fjármunum í hafnargerð víðs vegar um landið, bæði fyrir fiskiskipaflotann og einnig flutningaskip. Margt bendir til þess að sjóflutningar séu hagkvæmur kostur í þjóðhagslegu tilliti. Gæti verið ráð að samfélagið tæki höndum saman um að koma á strandsiglingum að nýju? Fyrirtækið gæti t.d. heitið Skipaútgerð ríkisins. Nafnið skiptir ekki öllu máli. Hitt skiptir máli að við förum í alvöru að hugleiða hvort við eigum annarra kosta völ en að byrja upp á nýtt og hefja uppbyggingarstarf á þeim sviðum þar sem ríkisstjórnir síðasta hálfan annan áratuginn hafa gengið harðast fram í einkavæðingu. Víða hefur hún skilið eftir sviðna jörð. Kannski leiðarhöfundur Morgunblaðsins láti svo lítið að fjalla um afdrif strandsiglinga á Íslandi í kjölfar þess að þær voru einkavæddar. Hinar sveru yfirlýsingar frá því í mars árið 1992 gefa fullt tilefni til slíks.