Fara í efni

NÝ TÆKIFÆRI Í HEILBRIGÐIS-ÞJÓNUSTU?

27. janúar britist í vefdagblaðinu NEI (http://this.is/nei/?p=3370) greinarkorn sem ég skrifaði i tilefni auglýsingar um málþing, sem stóð fyrir dyrum í fundarsal Læknafélags Íslands undir yfirskriftinni „Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi?" Í auglýsingunni stóð: „Hvernig viljum við sjá heilbrigðisþjónustuna á Íslandi í framtíðinni?" Og þar fyrir neðan: „Hvaða tækifæri eru til staðar í heilbrigðisþjónustu og hvernig getum við nýtt þau?"

Tækifæri?

Þessi auglýsing vakti hjá mér ýmsar spurningar: „Við hver?" spurði ég. „Tækifæri fyrir hvern?"

Nú má vera að viðbrögð mín hafi einkennst af fordómum. Ég hafði ekki tök á að sækja ráðstefnuna og veit því ekki beinlínis um hvað var fjallað á henni. En í auglýsingunni var markmið ráðstefnunnar sagt vera „að leiða saman ólíka aðila sem vilja hafa áhrif á heilbrigðisþjónustuna í framtíðinni og ræða hvernig hægt er að koma nauðsynlegum breytingum til leiðar."

Það sem ég hjó fyrst eftir í auglýsingunni var orðið „tækifæri", vegna þess að ég hef á tilfinningunni að undanfarinn áratug eða svo hafi orðið „tækifæri" orðið æ algengara, nánast tugga, og þá í merkingunni að hagnast, klifra upp, stækka. Prófið að „gúgla" orðið og fljótlega kemur upp setningin: „Lögð er áhersla á að bjóða viðskiptavinum að fjárfesta í nýjum tækifærum."

Nema þessi tugga varð til þess að ég fór að rýna í auglýsinguna og sá þá að fyrirtækið Heilsulausnir stóð fyrir henni. Leit á netinu hefur ekki gefið neinar nánari upplýsingar um það. Fundarstjóri var framkvæmdastjóri Strategíu ehf. Leit á netinu leiddi mig bara á Gulu síðurnar þar sem fyrirtækið er kynnt sem ráðgjafaþjónusta. En það kom hins vegar í ljós að framkvæmdarstjórinn, sem er kona, er á félagaskrá samtakanna Auður í krafti kvenna. Og þar er ferilskrá sem sýnir glæsilega feril gegnum ýmis fyrirtæki, meðal annars setu í gæðaráði Landspítala Íslands.

Auður í krafti kvenna

Félagaskrá þessara samtaka (www.leidtogaaudur.is/FelagatalOgFerilskrar) reyndist ákafleg áhugaverð lesning. Kannski má kalla þessi samtök klúbb. Þar koma ýmsir þræðir saman. Þarna eru konur sem eru í stjórnunarstöðum í ýmsum fyrirtækjum, einkum bönkum og verðbréfafyrirtækjum. Svo er þarna framkvæmdastjóri lyfjasviðs Vistor hf., sem er „leiðandi fyrirtæki á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilsuvörum, dýraheilbrigðisvörum sem og vörum fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur á Íslandi" (http://www.visitor.is/), framkvæmdastjóri Artasan ehf., sem sérhæfir sig „í sölu og ráðgjöf á vörum og lausnum sem stuðla að bættri heilsu, svo sem vítamínum, fæðubótaefnum og lausasölulyfjum" (http://www.artasan.is/), framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, aðstoðarmaður fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, forstjóri Lyfjastofnunar, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og rekstrarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, svo fáeinar séu nefndar. Einnig stjórnunarráðgjafi hjá Capacent, rektor Háskólans í Reykjavík og reyndar líka fyrrverandi rektor sem nú er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Maður lifandi.

Salt Investments

En aftur að ráðstefnunni. Meðal fyrirlesaranna voru forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, prófessors við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík, tveir sjúkraþjálfarar, annar þeirra framkvæmdastjóri fyrirtækisins Sjúkraþjálfun Styrkur ehf., heimilislæknir og hjúkrunarfræðingur sem er framkvæmdastjóri SALT Health en hún átti að fjalla um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu.

Á heimasíðu fyrirtækisins Salt Investments, http://www.saltinvestments.com/, er Salt Health reyndar ekki skráð sérstaklega sem sérstök deild í fyrirtækinu, en á starfsmannalistanum er fyrrgreindur hjúkrunafræðingur og fyrirlesari, María Bragadóttir, titluð Managing Director - Health. En þær deildir, sem þar eru skráðar eru: Salt Pharma, Salt Properties, Salt Constructions, Salt Education, Salt Green, Lazy Town og Capacent. Undir „Salt Pharma" er sagt að mikilvægur hluti af eignum Salt Investments sé hlutur þess í Actavis.

Undir „Salt Education" kemur fram að að Salt Investments á 60% í eignarhaldsfélagi sem hefur verið stofnað kringum Háskólann í Reykjavík. Rektor Háskólans í Reykjavík er Svafa Grönfeldt, áður aðstoðarforstjóri Actavis. Ef við höldum svo áfram kemur fram undir „Salt Green" að Salt Investments á núna veitingastaðina Grænn kostur og Maður lifandi. Og svo er það Capacent, „leiðandi þekkingarfyrirtæki með um 500 sérfræðinga á öllum Norðurlöndunum."

Á heimasíðu fyritækisins standa þessi fögru orð á ensku (ég læt þau óþýdd) undir fyrirsögninni Visions: „While fulfilling our role and meeting our responsibilities in the financial world, we at Salt Investments recognise that education, health and environmental matters are areas that need careful consideration. These matters are of great importance to us, and we focus our attention on projects that have a positive effect on the environment and empower people to improve their quality of life."

Fyrirtækið Salt Investments er að meirihluta í eigu Róberts Wessmans, fyrrum forstjóra lyfjafyrirtækisins Actavis. Núna í byrjun janúar, þegar fyrrverandi heilbrigðisráðherra kynnti sparnaðartillögur í heilbrigðismálum og flutning verkefna frá Sankti Jósepsspítala í Hafnarfirði til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, kom fram að Róbert Wessman hefði verði eitthvað að skoða sig um þar. Í viðtali á mbl.is 9. janúar tekur framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vel í mögulegt samstarf sjúkrahússins við Róbert Wessman (http://tinyurl.com/batahb). Einnig má vísa í stutta samantekt á þeim ágæt vef Leyniþjónusta götunnar (http://tinyurl.com/cf294a) og grein Skúla Thoroddsens í Víkurfréttum 10. janúar (www.vf.is/Frettir/39197/default.aspx).

Bísnissbóla í heilbrigðisþjónustu?

Í Morgunblaðinu 9. febrúar var stutt grein eftir Berg Ebba Benediktsson undir fyrirsögninni „ Hver verður næsta bóla?" Þar segir hann, að þótt ungur sé hafi hann þó fylgst með tveimur efnahagslegum bólum gildna og springa. Sú fyrri var oftrú á upplýsingatæknifyrirtæki, svo kom fjármálabólan nýsprungna og hann spyr hvort sú næsta verði menntabólan og bendiri á alla skólana sem nú spretta upp. Og mætti þá minna á ágæta bók Harðar Bergmann, sem kom út fyrir réttum tveimur árum, Að vera eða sýnast, og ætti að vera skyldulesning núna og hefði reyndar betur verið það þegar hún kom út. Í kaflanum „Menntastaglið" gagnrýnir hann ofuráherslu á æ lengra skólanám og hvernig hugtakið menntun er einskorðað við það. Og í næsta kafla fjallar hann um sjúkdómsvæðinguna: „Það er gangur í skráningu nýrra sjúkdóma og stundum er gripið til villandi tölfræði sem vekur ótta og örvar viðskipti við lyfjafyrirtæki." Ætli slíkt kallist ekki tækifæri í heilbrigðisþjónustu?