ÞEGAR NÝJA MARKIÐ SÁ DAGSINS LJÓS
Takk Ögmundur fyrir frumkvæði þitt að fundinum í dag. Það var mjög athyglisvert að hlusta á Zoe Konstantopoulou.
Þegar hún var að tala um Evrópusambandið og evruna kom mér í hug klausa úr gamalli norskri skáldsögu (gamalli eða ekki, hún kom út á æskuárum okkar).
Einn merkasti rithöfundur Norðmanna eftir Ibsen og Hamsun var Jens Bjørneboe, lítt þekktur hér. Merkasta bók hans, að mér finnst, kom út árið 1966, Frihetens øyeblikk. Þorsteinn bróðir minn gaf mér hana í jólagjöf árið 1970. Eftir að ég las hana var ég ekki samur maður. Ég byrjaði að þýða hana fyrir 30-40 árum en hætti svo, þar sem ég fann engan útgefanda. Fór svo að kíkja á þessa þýðingu núna nýlega, og sé að hún er miklu betri en eg átti von á. Hef svo gripið í að að þýða meira, en veit ekki hvort ég fæ nokkurn útgefanda.
Bjørneboe var fæddur 1921, dó 1976. Hann var víðreistur um Evrópu og velkunnugur Þýskalandi, bar gagnrýna virðingu fyrir Þjóðverjum og þýskri menningu.
Þetta er ekki hefðbundin skáldsaga. Sögumaðurinn er réttarþjónn í Alpaþorpinu Heiligenberg, fæddur og uppalinn í norðlægu landi, en var á flakki um heiminn árum saman áður en hann nam staðar í þessu kalvíníska fjallaþorpi, framfleytti sér sem réttarþjónn en tók sér annars fyrir hendur að skrá sögu skepnuskaparins, Bestialitetens Historie.
Hann hefur ýmislegt um Þjóðverja að segja, eða Germaníkerana, eins og hann kallar þá líka.
Ég veit ekki hvaða skoðun höfundurinn hafði á Evrópubandalaginu, eins og það hét áður en hann dó, og veit hvort hann átti nokkurn þátt í deilunum um það í Noregi meðan hann lifði. En í grein sem birtist í greinasafni 1975 fjallar hann m.a. um valdaránið í Grikklandi 1967 og þátt NATO og Bandaríkjanna í því, og segir svo: „Støtten til oberstenes brutale diktatur opphørte imidlertid ikke etter kuppet, våre NATO-allierte USA og Vest-Tyskland har etter at juntaens voldsherredømme ble stabilisert, investert langt større pengebeløp i Hellas, enn under tidligere regimer.
En mér flaug eftirfarandi klausa í hug þar sem ég hlustaði á Zoe Konstantopoulou í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Þetta er í minni þýðingu:
„Aðeins eitt einasta sinn í sögu sinni hafa þeir [germaníkerarnir] verið hamingjusamir, - það var á hinum góðu árum, þegar Hitler var yfirhershöfðinginn: árin frá 1936 til 1943 voru hamingjutími þeirra, þegar landið gat belgt sig út af peningum og svínasteikum annarra þjóða. Þó að nú sé engu líkara en að Tevtónía sé í þann veginn að fá óléttuæðiskast. Hvað er það sem Germanía ætlar að fara að fæða? Nýjan gjaldmiðil, sem er tvisvar sinnum sterkari? Kannski? Ég var á einni af ferðum mínum, þá sem ákafur lírukassaspilari og flakkari, af tilviljun staddur þar á hinum nýja sköpunardegi landsins, þegar Ný-Germanía fæddist: ég var þar við sjálft hið opinbera Währungsreform, þegar nýja Markið sá dagsins ljós, þegar það í augnabliki fæðingar sinnar fór fram úr svissneska frankanum, og varð svo guðdómlegt, undursamlegt, ósigrandi og stálhart sem dollarinn. Það var heilagt augnablik í lífi þjóðarsálarinnar; nú var til einhvers að þéna peninga: Lífið hafði aftur gildi. Á sömu sekúndu og fyrsti nýi markseðillinn fór út úr fyrsta bankanum, á sömu sekúndu vann Þýskaland þriðju heimsstyrjöldina!"
Nýja markið - og svo evran. Svo má auðvitað pæla í samhenginu, kannski í senn einföldu og flóknu, milli „germaníkeranna", evrópska auðvaldsins og alþjóðaauðvaldsins.