Fara í efni

EINKA-VÆÐING, EINKAREKSTUR EÐA HVAÐ?

Í umræðum um einkarekstur og einkavæðingu að undanförnu, einkum í samhengi við heilbrigðiskerfið, hefur borið nokkuð á mismunandi skilningi stjórnmálamanna á þessum orðum. Sumir talsmenn stjórnarflokkanna hafna því algerlega að hugmyndir um breytingar á rekstarformum í heilbrigðiskerfinu eigi nokkuð skylt við einkavæðingu: til að hægt sé að tala um einkavæðingu þurfi að koma til sala á opinberri stofnun, fyrirtæki eða öðrum opinberum eignum til einkaaðila þannig að í kjölfarið komi greiðsluþátttaka almennings og hið opinbera komi hvergi nærri viðkomandi rekstri. Heilbrigðisráðherra segir þetta vera hinn almenna skilning á hugtakinu.

Sumir talsmenn stjórnarandstöðunnar segja hinsvegar einkavæðingu vera ferli þannig að t.d. þjónustusamningur án aukinnar greiðsluþátttöku almennings geti verið liður í ferlinu einkavæðing.

Við nánari athugum kemur í ljós að orðið einkavæðing, eða samsvarandi orð í öðrum málum (privatization, privatisering...) eru ýmist skilin þröngum skilningi sem bein sala á opinberum eignum eða víðari skilning sem lengra og margbrotnara ferli og virðast fræðimenn frekar nota orðið í þeirri merkingu. Inni í fræðilega umfjöllun koma reyndar ýmis fleiri hugtök, eins og markaðsvæðing, viðskiptavæðing og fleira.

Ágreiningurinn sem nú er uppi um hugtakið einkavæðing skýrist ágætlega af orðum breska fræðimannsins Brendans Martins í fyrirlestri sem hann hélt á vegum BSRB árið 1999, Raunhæfar leiðir til að bæta almannaþjónustuna (gefinn út af BSRB 1999), þar sem hann víkur að mismunandi leiðum í einkarekstri á Bretlandi, svo sem framsalsrekstri og einkaframkvæmd. Og hver er ástæðan fyrir því að þessari aðferð er beitt? Jú, ástæðan er m.a.:
„... tækifærið sem hún gefur stjórnvöldum til að halda því fram að þau séu eiginlega ekki að einkavæða þjónustu, sem viðkvæm er frá pólitísku sjónarmiði, úr því að eignirnar haldast í eigu ríkisins eða verða eign þess að lokum. [...] En í rauninni er þetta ekki annað en orðaleikur. Það er hægt að einkavæða opinbera þjónustu án þess að einkavæðingin taki til eignarhalds á mannvirkjunum." (bls. 9)

Milli 20 og 30% heilbrigðiskerfisins hafa löngum verið rekin af öðrum aðilum en ríki og sveitarfélögum, þannig að mönnum ætti kannski ekki að bregða við einstökum tilvikum þar sem samið væri við einkaaðila um rekstur einstakra eininga. En í sögulegu og pólitísku samhengi er eðlilegt að nota nú hugtakið einkavæðing þegar rætt er um breytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa unnið markvisst að einkavæðingu og þeirri vinnu lauk alls ekki með myndun núverandi ríkisstjórnar. Það er ljóst að stefnt er að því að færa sem mest í einhverskonar einkarekstur sem einkaaðilar geta á annað borð hagnast eitthvað á.

Byrjað var á einfaldri einkavæðingu með sölu bankanna, símans og annarra ríkisfyrirtækja en síðan er leitað inn á svið skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins og annarrar velferðarþjónustu og það hefur raunar verið á döfinni í meira en áratug. Þar verður einkavæðingin miklu flóknari, enda varla gerlegt að selja allt heila klabbið heldur eru bútar einkavæddir eftir því sem henta þykir, ekki endilega með sölu heldur þjónustusamningum eða einhverju slíku. En þessi einkavæðing er líka miklu umdeildari en einkavæðing fyrrnefndra ríkisfyrirtækja og er það talsmönnum ríkisstjónarinnar því mikilvægt að þetta sé ekki kallað einkavæðing. En, eins og Brendan Martin benti á, þá er það í rauninni ekki annað en orðaleikur.

Það er vel hugsanlegt að einhver einkarekstur eða þjónustusamningar geti verið hagkvæmir og réttlætanlegir innan heilbrigðiskerfisins en ef litið er til þeirrar einkavæðingarstefnu sem uppi hefur verið og er enn bæði hér og víða annarsstaðar, þá er ástæða til að óttast að þau skref sem verið er að stíga séu liður í frekari einkavæðingu sem á endanum muni frekar taka mið af hagsmunum einkafyrirtækja en almennings. Reynsla af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu (og annarri almannaþjónustu) hefur líka víða verið slæm fyrir almenning þótt undantekningar séu kannski til.

Sjá nánari grein um þetta á slóðinni: http://notendur.centrum.is/~einarol/einkavaeding.html