Fara í efni

EINKAVÆÐINGARFJÁRLÖGIN

Í gær fór fram á Alþingi einhver undarlegasta umræða sem þar hefur farið fram um árabil. Þetta var fyrsta umræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á Símasilfrinu, söluandvirði Símans. Ráðstöfun fjármunanna nær ekki einvörðungu til yfirstandandi kjörtímabils heldur langt fram á næsta jafnvel þarnæsta kjörtímabil! Einsog fram hefur komið í fréttum á að reisa sjúkrahús, sinna geðfötluðum, íslenskum fræðum, landhelgisgæslunni og samgöngumálum. Allt – eru þetta hin bestu mál þótt sitthvað þurfi nánari umræðu við áður en til framkvæmda kemur.
En þarna stóðu menn í ræðupontu Alþingis og ræddu hvort heppilegt væri að hafa hátæknisjúkrahús við Hringbraut eða einhvers staðar annars staðar; hvort æskilegt væri að setja upp vegatolla á Sundabraut og hvað með vegaumbætur í Hornafirði?, spurði einhver. Menn töluðu sig upp í funa og hita.
En hvers vegna ræða um ráðstöfun á söluandvirði Símans á annan hátt en ráðstöfun þeirra peninga sem við komum til með að borga í skatta á komandi árum og ráðstafa þá á fjárlögum? Eru skattpeningarnir okkar eitthvað frábrugðnir þessum fjármunum? Að sjálfsögðu ekki.

Skýringin á þessari framsetningu er ofur einföld. Þjóðin var almennt andvíg einkavæðingu Símans. Ef eitthvað er að marka skoðanakannanir þá var þetta tvímælalaust svo, því aftur og ítrekað kom þjóðarviljinn fram á þennan veg í skoðanakönnunum sem gerðar voru.

Nú var úr vöndu að ráða fyrir ríkisstjórn sem staðráðin var í því að hunsa þjóðarviljann. Eftir nokkra yfirlegu var brugðið á það ráð að búa til sérstök Einkavæðingarfjárlög um ráðstöfun símasilfursins. Í Einkavæðingarfjárlögunum skyldi aðeins vera að finna vinsæl mál, engin kaup á sæti í öryggisráði SÞ þar, umdeildar fjárveitingar til NATÓ eða annarra mála sem lítt eru til vinsælda fallin. Slíkt skyldi vera í hinum hefðbundnu fjárlögum. Í Einkavæðingarfjárlögunum ætti aðeins að vera sólskin og gleði.

Stjórnarmeirihlutinn tók að sjálfsögðu bakföll af hrifningu og einskærri ánægju yfir gjafmildi ríkisstjórnarinnar. Margir stjórnarandstöðumenn bitu einnig á agnið og fóru að ræða einstaka efnisþætti fumvarpsins, þar á meðal fjárveitingar þingsins á þarnæsta kjörtímabili! Þannig var ástandið innan veggja Alþingis í gær.

Ég velti því fyrir mér hvort þjóðin sjái ekki í gegnum þennan hráskinnaleik ríkisstjórnar sem er ekki vandaðri að virðingu sinni en svo, að hún vílar ekki fyrir sér að reyna að kaupa sér vinsældir, breiða yfir óvinsæla og óafsakanlega ráðstöfun dýrmætrar þjóðareignar, með því að gefa út sérstök Einkavæðingarfjárlög?
Ég trúi ekki öðru en fólk sjái í gegnum blekkingarnar. Þegar fram líða stundir og arðurinn frá Símanum hættir að streyma í þjóðarvasann mun eflaust renna upp ljós jafnvel hjá þeim sem nú hafa glýju í augum og telja að ríkisstjórnin sé að færa þjóðinni fé af himnum ofan.