EINKAVÆÐINGIN Á LANDSPÍTALANUM
Birtist í Morgunblaðinu 15.01.08.
MYNDIN er að skýrast varðandi „útvistun" á störfum læknaritara á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
1) Ljóst er að þetta er liður í áformum um einkavæðingu á starfsemi Landspítalans. Það upplýsti Niels Christian Nielsen, aðstoðarmaður lækningaforstjóra, í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 hinn 7. janúar sl. Þessi talsmaður sjúkrahússins var spurður hvort þetta væri „skref í átt að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu?" Hann svarar: „Ja, nú erum við að taka eitt skref í einu, við skulum sjá fyrst hvort að þetta gengur upp hjá okkur og hvort að allra öryggisþátta og þeirra þátta sem við höfum, sem við berum fyrir brjósti, hvort það gengur upp og þá gæti þetta orðið skref í þá áttina."
2) Yfirlýstur tilgangur með útvistun er að ná niður útgjöldum sem stéttarfélögin óttast að verði á kostnað starfsmanna. Már Kristjánsson, sviðsstjóri á slysa- og bráðasviði LSH, segir í fréttaviðtali á Stöð 2, 8. janúar sl., að Landspítalinn sé með þessu að „leita allra leiða til að ná rekstrarkostnaði niður". Hann segir ennfremur: „Okkur er þröngt sniðið stakkurinn að umbuna fólki í formi launa þannig að við sjáum þarna ákveðin tækifæri fyrir fólkið að stofna fyrirtæki þar sem að það gæti tekið þennan þátt læknaritunarstarfanna að sér og við teljum að það séu möguleikar á því að fólk geti aflað sér betri tekna með þessum hætti." Í fréttinni er ennfremur haft eftir sviðstjóranum að spítalinn hafi „hvorki ... fjárhagslegt svigrúm til að fjölga læknariturum né borga þeim yfirvinnu. Stjórnendur vilji sjá meiri afköst fyrir minna fjármagn. Felist engin hagræðing í tilraunaverkefninu verði ekki af útboði."
Ekki verður betur séð en hér sé verið sé að reyna að slá ryki í augu fólks með tali um að í útvistun felist „tækifæri fyrir fólkið" þegar jafnframt er ljóst að verið er að fara fram á meiri vinnu fyrir minni laun.
3) Ekki hefur verið leitað eftir samstarfi við starfsfólk. Eftirfarandi yfirlýsing frá fulltrúum læknaritara á Landspítala birtist í 24 Stundum 28. des. sl.: „Læknaritarar á Landspítala harma það að þurfa að kalla eftir upplýsingum eða lesa í dagblöðum um þá fyrirætlan að bjóða út ritun sjúkraskráa stofnunarinnar. Læknaritarar fordæma þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við þessa fyrirætlan. Á annað hundrað læknaritara vinna á spítalanum og lesa um það í blöðunum að „...þeir sem missa vinnu hjá okkur verði ráðnir annars staðar ef til þess kemur..." (24 stundir) og að leita eigi eftir skilvirkari vinnubrögðum. Læknaritarar telja verulega að starfsheiðri sínum vegið. Mikið hefur verið fjallað um málefni Landspítala síðustu vikur. Málefnin eru mörg og brýn sem taka þarf á. Læknariturum er kunnugt um það eins og öðrum fagstéttum. Bendum við á að læknaritarar eru færir um að ræða um þau málefni sem að þeim snúa svo sem ritun sjúkraskráa, hagræðingu ýmiss konar og ekki síst lausnir. Læknaritarar eru meðvitaðir um húsnæðisvanda spítalans. Við hvetjum framkvæmdastjórn Landpítala til að eiga viðræður við læknaritara um þeirra málefni."
4) Þegar útboðsgögnin á verkefninu eru skoðuð kemur í ljós að það er ekki á færi nokkurra einstaklinga að bjóða í verkefnið eins og gefið hefur verið í skyn. Vitað er að fyrirtæki í lyfjaiðnaði hafa sýnt verkefninu áhuga en láta fylgja með sögunni að þau myndu stofna sérstakt fyrirtæki um þennan þátt sérstaklega, væntanlega meðvituð um þá gagnrýni að varhugavert sé að fela hagsmunaaðilum í lyfjasölu rekstur þessarar starfsemi.
5) Sagt er að um sé að ræða tilraunaverkefni og verði frekari ákvarðanir teknar að tilraunatímanum - sex mánuðum - liðnum. Trúir því einhver að eftir að fyrirtæki hefur fengið verkefnið í sinn hlut, komið sér upp nauðsynlegum búnaði og ráðið fólk til starfa, að þá yrði verkefnið tekið frá því? Er ekki jafnvel líklegt að öflugt fyrirtæki sem ætlaði sér að komast þarna í örugga tekjulind til frambúðar myndi jafnvel undirbjóða verkið á tilraunatímanum vitandi að þegar fram liðu stundir hefði það yfirburðastöðu, jafnvel einokunaraðstöðu, gagnvart LSH og gætu þá stillt spítalanum upp við vegg?
6) Læknaritarastarfið er eitt af lykilstörfum í heilbrigðiskerfinu. Persónuverndarsjónarmið og krafa um góða fagmennsku eru þar grundvallaratriði. Læknaritarar vilja að sjálfsögðu koma að endurskipulagningu á verksviði sínu ef um slíkt ætti að vera að ræða. Furðu sætir að stjórnendur á LSH skuli sýna starfsstéttinni þá framkomu sem raun ber vitni.
7) Hvað segir Persónuvernd um þessi áform? Hvers vegna er ætt áfram með málið áður en það hefur verið brotið til mergjar hvað öryggi sjúklinga varðar? Getur verið að forstjórar á Landspítalanum haldi að þetta sé eitthvert prívatmál þeirra?
Árni Stefán Jónsson er formaður SFR og Ögmundur Jónasson er formaður BSRB.