Fara í efni

EINLEIKUR

 

Nýkjörnum formanni fyrirtækja í sjávarútvegi, Guðmundi Kristjánssyni í Brimi hf., er mikið niðri fyrir þessa dagana vegna fyrirhugaðra breytinga á auðlindagjaldi fyrir sjávarútvegsfyrirtæki á borð við hans eigið. Atvinnugreinar verði að sitja við sama borð segir hann og ekki gangi að stjórnvöld “spili einleik.”

Það væri náttúrlega verðugt verkefni að bera saman hag mismunandi atvinnugreina í landinu og þá arðsemi eininga innan þeirra, til dæmis mætti taka stöndugustu sveitabýlin og bera saman við Brim og þá arðinn sem fellur í skaut eigenda, stórbóndans annars vegar og eigenda stórútgerðarinnar hins vegar. Eða ylræktarbóndans sem borgar dýrum dómi fyrir aðgengi að sinni lífsbjörg yl og rafmagni.

Annars þarf ekki að hafa um þetta mörg orð, allir skilja málið í botn, frekjuna í stórútgerðinni.
Hún hefur farið sínu fram í aldarfjórðung, hagnast á sjávarauðlindinni svo mjög að hún hefur teygt eignarhald sitt yfir í allar þær atvinnugreinar í landinu sem þykja arðvænlegastar; veðsett óveiddan fisk og síðan risið upp til handa og fóta meira að segja þegar stjórnvöld landsins hafa viljað grennslast fyrir um eignarhald í sjávarútvegi.
Svandís sjávarútvegsráðherra var þá sökuð um ofríki og gott ef ekki einelti og einleik gagnvart stórútgerðinni; nú er það Hanna Katrín ráðherra sem sögð er vera fúskari sem neiti að biðja forstjóra Brim um leyfi til að skattleggja nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar!

Deilan nú snýst um upphæð auðlindagjalds en ætti að fjalla um fyrningu kvótans og þar með framsalskerfisins. Sumir stjórnmálaflokkar lofuðu í eina tíð að leggja þetta kerfi af. Það var meira að segja eitt meginstefið hjá Samfylkingunni og einnig VG um alllangt árabil.

Hvað segði Morgunblaðið, sem tekið hefur það að sér að verja og vernda lítilmagna á borð við Guðmund í Brimi, ef það væri fyrningin sem væri til umræðu af hálfu ríkisstjórnar Íslands?
Sú umræða á hins vegar eftir að koma þótt einhver bið verði á því með núverandi skipan Alþingis.

En Íslandssagan er sem betur fer ekki búin.

--------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/