Eins og ekkert hafi í skorist!
Portúgalskir verkamenn við Kárahnjúka neituðu í gær að vinna nema hópurinn allur fengi hlífðarfört. Um var að ræða skófatnað og ullarsokka eftir því sem fram kom í fréttum. Í frásögnum fjölmilðla í gær var svo að skilja að þessi vinnustöðvun, þetta verkfall starfsmanna "væri í samráði" við Impregilo! Óvenjluegt er að samkomulag náist á milli atvinnurekanda og verkamanna um að hinir síðarnefndu leggi niður vinnu í mótmælaskyni við þennan sama atvinnurekanda. En látum það vera. Við erum orðin því vön að margt sé skrýtið í kýrhausnum við Kárahnjúka. Næsta sem við heyrum er að fjórir verkamannanna hafi verið reknir. Þeir séu á leið til Egilsstaða og síðan til Reykjavíkur á leið úr landi.
En aftur næst samkomulag. Að þessu sinni ekki um frekari vinnustöðvun. Nú er greint frá því að verkamennirnir verði ekki reknir enda hefji allir störf á morgun. Þetta hlýtur að þýða að fyrra "samkomulag" um verkfall skuli nú rofið. Nú undir kvöldið sendi fréttafulltrúi Impregilo síðan út svohljóðandi fréttatilkynningu: " Rétt í þessu samþykktu forsvarsmenn Impregilo við Kárahnjúka að draga til baka uppsögn fjögurra starfsmanna, sem sagt hafði verið upp störfum í dag. Uppsagnirnar voru dregnar til baka með því skilyrði að allir sem hefðu til þess búnað, hæfu þegar í stað vinnu. Impregilo vill taka fram að fyrirtækið er ákaflega ánægt með þessa niðurstöðu mála og vonar að þetta sé síðasta málið af þessum toga.Engir eftirmálar verða vegna þessa máls og bygging Kárahnjúkarvirkjunar heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist."
Það er nefnilega það lesendur góðir. Haft er í hótunum við fátæka verkamenn. Þeim skipað til vinnu fatalitlum. Þeir rísa upp og með samstöðu fá þeir varið sig – í bili. Nú fáum við að heyra að þeir verði ekki látnir gjalda fyrir baráttu sína fyrir sjálfsögðum réttindum, baráttu sem haldið var að Íslendingum að væri háð í góðri samvinnu við Impregilo!! En semsagt, síðustu skilaboð frá Impregilo eru þau að haldið skuli áfram "eins og ekkert hafi í skorist."!!!
Hvað skal segja?