EINS OG PÁLMATRÉ Í VOGUNUM
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 16/17.02.19.
Þess eru ófá dæmi frá liðinni tíð að listamenn sem öðlast hafa viðurkenningu hafi ekki verið metnir að verðleikum af samtíð sinni. Þetta þekkjum við úr okkar sögu og erlendis geymir menningarsagan mörg slík dæmi. Þetta gerir það að verkum að við förum varlega í að gagnrýna listsköpun sem er okkur framandi. Hver vill verða til þess að hafa fordæmt eða fúlsað við nýjum Picasso eða Laxness framtíðarinnar?
Þýðir þetta þá að varasamt sé að gagnrýna nútímalist, hafi menn ekki stimpil upp á að mega gera slíkt? Með þessu orðalagi er ég ekki að hnjóða í listfræðina, alls ekki, enda ber ég virðingu fyrir henni. En ég vil heldur ekki láta tala okkur niður sem erum meira fákunnandi um vegi listarinnar en þau sem innvígð eru í hennar heim.
Þegar allt kemur til alls þá er ekkert að því að hafa sterkar skoðanir á pálmatrjám í Vogunum, og það því heldur að það eru okkar fjármunir sem yrðu notaðir til að smíða utan um hin suðrænu tré sem þýskur verðlaunahafi Reykjavíkurborgar gerir tillögu um að hingað verði flutt.
Hugmyndin er okkur sögð vera sú, að þar sem pálmatré eru suðræn þá komi þau til með að hlýja okkur á sálinni í nepjunni sem er nánast viðvarandi við sundin blá. Við gætum með öðrum orðum látið okkur dreyma um sólríkar slóðir, enda bjóði veruleiki okkar ekki upp á annað en drauma.
Það er kannski ljótt að segja það en mér finnst ekki laust við að í leiðinni sé verið sé að klappa okkur ögn á kollinn í meintu fásinninu hér norður á nára. Listakonan segir það berum orðum að hugmynd sín hafi kviknað vegna þess að Íslendingar “þrái suðrænni andblæ í hversdagslífið”.
Annars hefur verðlaunaveitingin kynt undir frjórri, hugmyndaríkri umræðu. Umhugsunarverð er allavega tillagan um að nota milljónirnar hundrað og fjörutíu til að senda íbúa í Vogunum í sólarlandaferðir og ná sér þannig milliliðalaust í suðræna sól.
Ef til vill eiga pálmatrén í Vogunum eftir að breyta fleiru en dagdraumum okkar. Kannski verður til ný hugtakanotkun í íslensku. Nú er gjarnan talað um vin í eyðimörkinni þegar gróðurríkan blett er að finna í lífvana sandauðn og er þetta þá notað sem myndlíking vilji menn máta það sem þeir sjá afbragsgott við það sem hraklegt er.
Hver veit nema næsta kynslóð tali um að eitthvað sé eins og pálmatré í Vogunum þegar slá á einhverju verki sérstaka gullhamra, að með því séu okkur færðar umbætur sem um munar.
En svo má vel vera að pálamtrén verði aldrei meira en hugmynd og að við sitjum uppi í nepjunni, án þess að geta yljað okkur við tilhugsun um sólríkan heim undir pálmatrjám í Vogunum.