Fara í efni

EINS OG ÞAÐ HEFÐI GERST Í GÆR ...

Bónuspottur Kaupþings 2016
Bónuspottur Kaupþings 2016

Nokkrum sinnum á þingferli mínum hef ég talað fyrir leiðum til að draga úr kjaramun. Ég gerði þetta til dæmis árið 2007 og svo aftur núna, árið 2016. Reyndar miklu oftar. En þessar dagsetningar koma upp í hugann, annars vegar árið fyrir hrun, þegar græðgin og gróðavíman voru í þann mund að renna á þjóðina af fullum krafti og svo aftur nú, þegar sagan virðist vera að endurtaka sig.  Bæði þá og nú hef ég talað fyrir tillögum um að launamunur verði aldrei meiri en einn á móti þremur. https://www.ogmundur.is/is/greinar/varnarvisitala-laglaunafolks-komin-fram-a-althingi

Forsíða DV í vikunni vakti þessi hugrenningatengsl. Þar segir frá eitt þúsund og fimm hundruð milljón króna bónus potti fyrir nokkra stjórnendur í Kaupþingi, nái þeir að braska þannig með eignir að góður gróði hljótist af. Á innsíðum blaðsins er okkur síðan sagt að tillaga liggi fyrir um að stjórnarmenn í Kaupþingi eigi að fá þrjátíu og þrjár milljónir á ári eða tæpar þrjár milljónir á mánuði og stjórnarformaðurinn helmingi meira, sextíu og sjö milljónir í árslaun sem gerir fimm og hálfa milljón á mánuði. Þetta er kallað „þóknun" á tungumálinu sem talað er í þessum geira. Það er ekkert undarlegt að okkur sé sagt að „markaður með jarðir sé að taka við sér" eftir nokkur „mögur ár"! Við munum hvernig sú bóla fór á endanum. http://www.bbl.is/folk/jardamarkadurinn-ad-taka-vid-ser/15937/   

En ég leyfi mér að spyrja hvernig væri nú að hækka „þóknunina" til lægsta kjarahópsins í landinu til samræmis við fyrrnefnda launaformúlu, einn á móti þremur? Annar kostur er vissulega að lækka ofurtekjuhópinn eða þá finna einhverja millileið sem að sjálfsögðu er skynsamlegast að gera.

Ég fletti upp hér á síðunni til ársins 2007 og rakst þar fljótlega á grein sem var nokkuð lýsandi og fjallaði meðal annars um viðfangsefni þessa litla pistils, ofurlaunin, lágu launin og æskileg kjarahlutföll. Yfirskriftin var:  126 ÁR AÐ VINNA UPP Í MORGUNVERK BANKASTJÓRA https://www.ogmundur.is/is/greinar/126-ar-ad-vinna-upp-i-morgunverk-bankastjora