Fara í efni

EINSOG BELJUR Á VORI

BELJA 4
BELJA 4

Varla man ég eftir eins sérstakri stemningu í Alþingishúsinu og þar ríkir þessa dagana. Umræðuefnið á þeim bænum er rammaáætlun um vernd og orkunýtingu. Stjórnarandstaðan bendir á að meirihlutinn á þingi sé að reyna að þröngva í gegn samþykkt þvert á lögformleg ferli. Sú gagnrýni á við rök að styðjast því þingsályktunartillagan sem er til umræðu gengur út á að taka útúrlögformlegu ferli tiltekna virkjunarkosti og setja í  svokallaðan nýtingarflokk.

Yfirleitt verða menn reiðir og leiðir þegar þingið fer í hægagang vegna ósættis. En sú er ekki raunin nú. Gleðin yfir því að geta nú farið að taka til hendinni í alvöru við að virkja og virkjunarvæða landið okkar er yfirsterkari óánægju með hægaganginn.

„Hugsið ykkur", heyrði ég stjórnarþingmann segja, brosandi út að eyrum, „ef fyrri stjórn hefði ekki tekið virkjanir í Þjórsá og sett í biðflokk, væru í þann veginn að komast í gagnið nokkrar arðvænlegar virkjanir til að  mala fyrir okkur gullið. Þessu fáum við nú breytt!"

Svona einfalt er málið hins vegar ekki. Á þessu máli einsog flestum öðrum eru tvær hliðar. Þannig vinnur hvaladráp gegn hvalaskoðun. Því meira hvaladráp, þeim mun minni hvalaskoðun.

Eins er það með virkjanir, því meira sem við virkjum og spillum óspjallaðri náttúru Íslands  þeim mun minni verður áhugi erlendra ferðamanna  á að njóta landsins. Einstök náttúra landsins er án nokkurs vafa  stærsta trompspil Íslendinga í atvinnulegu tilliti þegar til framtíðar er horft. Ef náttúran er hins vegar lögð undir malbik hættir hún að sjálfsögðu að vera það tromp sem hún er ennþá.

Auðvitað eru þetta einfaldanir. En þó ekki alveg.

Beaune í sunnanverðu Frakklandi er fallegur bær með fögru yfirbragði og sögulegum hefðum sem eru vel sýnilegar aðkomumönnum. En líka er að verða vel sýnilegt hótelkraðak í í útjaðri bæjarins sem greinilega er reist með minnsta mögulega tilkostnaði og allt sparað til alls. Hótelvöxturinn minnir á illkynja manngert æxli sem byrjað er að teygja sig inn í hinn fagra bæ. Lækning hefði eflaust verið gerleg - alla vega þannig að æxlið hefði orðið góðkynja ef græðgin hefði ekki tekið völdin.

Sama á við í nátturunni . Ef græðgin tekur völdin í umgengni okkar við náttúru landsins þá erum við að bregðast framtíðinni.

Núverandi ríkisstjórn mun gera það ef hún fær ekki aðhald innan þings og utan og skiptir hið síðara þar ekki minna máli.

Eins og sakir standa fylgjast menn með rassaköstum og gleðilátum þingmanna stjórnarmeirihlutans sem minna svolítið  á beljur að koma útúr dimmri innilokun eftir langan vetur. Þetta eru hins vegar engir vorboðar með fuglasöng. Betur ef svo væri.