EINU GLEYMDI BJÖRGÓLFUR
Birtist í Morgunblaðinu 16.11.06.
Á miðopnu Morgunblaðsins mánudaginn 13. nóvember birtist ágæt grein eftir Björgólf Guðmundsson, formann bankaráðs Landsbankans. Greinin heitir Samfélagsleg ábyrgð er sjálfsábyrgð. Í niðurlagi hennar segir höfundur: „Bankaráð Landsbankans hefur einsett sér að á 120 ára afmælisári bankans muni hann endurskoða félagslegt hlutverk sitt og ábyrgð í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á eðli og starfsemi bankans á undanförnum árum. Að því búnu mun Landsbankinn, líkt og hingað til, láta verkin tala.“
Björgólfur Guðmundsson tíundar í grein sinni á hvern hátt stórfyrirtæki geti sýnt samfélagslega ábyrgð og látið verkin tala. Hann vísar m.a. til góðgerðamála og annars samfélagslegs stuðnings, umhverfisstefnu, ábyrgrar auðlindastefnu og ábyrgrar fjármálaþjónustu við almenning.
Á hvaða forsendum axli fjármálamenn ábyrgð?
Hið góða við grein Björgólfs er að þar er litið á það sem viðfangsefni fjármálamanna að axla ábyrgð gagnvart því samfélagi sem þeir eru sprottnir upp úr: „Atvinnulíf er veigamikill þáttur í því samfélagi sem við öll lifum í og erum hluti af. Annað er ekki til án hins. Á sama hátt og samfélaginu nýtist vel að atvinnulíf eflist og styrkist er það atvinnulífi til framdráttar að þjóðlíf blómstri í traustu og öruggu samfélagi. Ábyrgð atvinnulífs gagnvart samfélagi er því sjálfsábyrgð. Samfélagsábyrgð fyrirtækja er viðleitni þeirra til að efla og bæta það umhverfi sem þau starfa í“.
Björgólfur Guðmundsson er ekki fyrstur manna til að vekja athygli á sjónarmiðum sem þessum nú í seinni tíð. Það hafa leiðarahöfundar Morgnblaðsins margoft gert og það gerði einnig Þorkell Sigurlaugsson svo eftirminnilegt dæmi sé tekið. Hann skrifaði merka grein í Viðskiptablaðið 29. júní í fyrra þar sem hann hvatti íslensk stórfyrirtæki til að axla samfélagslega ábyrgð og láta fé af hendi rakna til þjóðþrifamála. Þorkell sagði að fjármagnseigendur þyrftu ekki að óttast að „hér sé sósíalismi kominn á kreik“, því „hér er verið að tala um að þetta verði gert á forsendum fyrirtækjanna". Ég minnist þess hve lofsvert mér þótti það vera hve skýrt Þorkell Sigurlaugsson talaði.
Markaðsvætt til að lækka vöruverð?
Undanfarinn áratugur hefur verið áratugur einkavæðingar. Margvísleg starfsemi hefur verið færð undan handarjaðri fulltrúa almennings og í hendur fjármálamanna. Þetta hefur verið gert á þeirri forsendu að einkaframtakið skili betri þjónustu og lægra verði. Auk þess hefur okkur verið sagt að samfélagið eigi að sinna því sem samfélagslegt er, markaðurinn því sem markaðarins er. Nú bregður hins vegar svo við að markaðsfyriritækin – alla vega hin ábyrgari – gerast æði upptekin af samfélagslegu hlutverki sínu en hirða minna um þjónustu og allra minnst um verðlag. Þannig eru vextir og þjónustugjöld bankanna á okurstigi á sama tíma og Þjóðleikhúsinu eða Þjóðminjasafni Íslands eru réttar nokkrar milljónir í styrk. Að verki eru sömu fyrirtæki og okra á viðskiptavinum sínum. Olíufyrirtækin keppa ekki fyrst og fremst um viðskiptavini á grundvelli verðlags, alla vega er verðmuninum ekki fyrir að fara fremur en hjá bönkunum, heldur reyna þau að höfða til fólks á þeirri forsendu til dæmis að þau sinni vel skógrækt og uppgræðslu örfoka lands!
Spurning um lýðræði
Á endanum snýst þetta mál um lýðræði. Með því að lækka stöðugt skatta á fyrirtæki og auka þannig fjárráð þeirra – m.a. til góðgerðastarfs og stuðnings við listir, menntir og önnur þjóðþrifamál er fjárveitingarvaldið fært frá fulltrúum almennigs til handhafa fjármagnsins.
Þetta eru í mínum huga ekki framfarir heldur skref aftur á bak – inn í þann tíma er peningamenn réðu lögum og lofum í samfélaginu og almannaþjónustan spannaði ekki mikið meira en að halda uppi löggæslu. Tillaga nefndar forsætisráðherra um að ganga enn lengra í þá átt að ívilna stórfyrirtækjum og auðmönnum er þannig ekki aðeins samfélagslega ranglát heldur beinlínis atlaga gegn lýðræðinu.
Ekki ætlast ég til þess að Björgólfur Guðmundsson sé mér sammála um þessi grundvallaratriði. Ekki heldur hitt að það eigi að flokkast undir samfélagslega ábyrgð að eigendur og stjórnendur fyrirtækja taki ekki meira en góðu hófi gegnir í sinn vasa af rekstrarfé. En spurning er hins vegar hvort við gætum ekki orðið sammála um hitt, að markaðsfyrirtæki eigi fyrst og fremst að skila vöru á góðu verði. Eða til hvers var leikurinn annars gerður? Að færa völdin til í samfélaginu? Mér þótti verðlagsþátturinn gleymast í annars ágætri umfjöllun formanns bankaráðs Landsbankans á leiðarasíðu Morgunblaðsins.