EKKI ER DRÍFA ÖLL
Mikil eftirsjá er að Drífu Snædal af forsetastóli ASÍ. Hún hefur lengi og af krafti látið að sér kveða í þágu launafólks og almannahagsmuna ekki aðeins sem forseti ASÍ heldur áður sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og enn fyrr í öðrum trúnaðarstörfum sem hún hefur gegnt innan verkalýðshreyfingar og í pólitísku baráttustarfi.
Hún hefur verið sjálfri sér samkvæm í málflutningi hvort sem það er fyrir hönd launafólks, í jafnréttis- og verkalýðsbaráttu bæði hér á landi og úti í heimi. Alltaf komið fram af yfirvegun og festu, verið glæsilegur fulltrúi sinna umbjóðenda.
Í hennar tíð hefur ASÍ tekið afgerandi afstöðu í hitamálum samtímans og alltaf hefur Drífa Snædal lagt sín lóð á vogarskál þeirra sem höllum fæti standa eða þurft á stuðningi að halda hvort sem eru spilafíklar á Hlemmi, láglaunafólk á Íslandi, undirokað fólk í Palestínu, Kúrdistan eða annars staðar.
Drífa tók afgerandi afstöðu gegn markaðsvæðingu orkunnar þegar á þann málstað reyndi og býður mér í grun að ekki hafi það alltaf verið óumdeild afstaða innan Alþýðusambandsins.
En þetta er ekki minningargrein því ekki er Drífa öll. Því fer fjarri. Og þótt ég neiti því ekki að ég er sorgbitinn yfir brotthvarfi hennar úr embætti forseta ASÍ og að hún yfirleitt stigi af þeim vettvangi þá þykist ég þess fullviss að sól hennar mun rísa á nýjum vettvangi.
Drífu Snædal óska ég velfarnaðar. Hið sama á við um Alþýðusambandið og þau sem þar starfa. Þeim óska ég einnig alls góðs. Íslenskt samfélag þarf á öflugri baráttuhreyfingu launafólks að halda.
Dagurinn í dag var ekki góður. Þá er verkefnið að gera morgundaginn betri. Það eitt er þó víst að það er hægt að gera!