EKKI HVORT EÐA HVENÆR, HELDUR HVERNIG KERFINU VERÐUR BREYTT
Adolf Guðmundsson, formaður LÍU, sagði í dag að ef breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnunarkefinu vildi hann „ ekkert segja um hvort flotinn verði kyrrsettur en það eru allir möguleikar á því!"
Annar forsvarsmaður LÍÚ sagði fyrir fáeinum dögum að sér fyndist koma til greina að fá erlendan sáttasemjara til að miðla málum á milli kvótahafa og meirihlutans á Alþingi varðandi skipulag og skattlagningu í sjávarútvegi.
Hvernig á að taka svona málflutningi? ...svona hótunum?
Ég vil gera greinarmun á því annars vegar, þegar launamaður leggur niður vinnu SÍNA til að þrýsta á kröfur um kjara- eða réttindabætur og hins vegar þegar útgerðarfyrirtæki sem fengið hefur aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar til að fénýta hana, leggur niður vinnu ANNARRA sjálfum sér til hagsbóta. Ef kvótahafi er ósáttur við þau kjör sem honum bjóðast hlýtur þjóðin að kanna hvort aðrir eru reiðubúnir að sætta sig við þau kjör sem þjóðkjörið Alþingi ákveður. Sjálfum þykir mér að kvótahafar sem beita eigendur auðlindarinnar ofbeldi eigi ekki að geta gengið að því sem vísu að látið verði eins og ekkert hafi í skorist.
Ef löggjafarvaldið á því aðeins að geta skattlagt nýtingu auðlindar, að áður hafi verið kallað á milligöngumann til að gæta þess að almannahagur vegi ekki of þungt(!), þá hlýtur einnig að þurfa utanaðkomandi sáttasemjara til að setjast að samningaborði með löggjafa og stórfjárfestum áður en leyfilegt er að hækka fjármagnstekjuskatt.
Ef stjórnarandstaðan á Alþingi ætlar með málþófi að koma í veg fyrir veiðigjald og breytingar á fiskveiðistjórnunarkefinu mun málið enda frammi fyrir þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þyrfti ekki að vera slæmur kostur. En þá myndi ekki duga að setja fram útvatnaðar tillögur sniðnar að málamiðlun á Alþingi. Þá yrði að mínu mati að ganga lengra í átt að þjóðarviljanum sem vill - einsog margoft hefur komið fram - uppskurð á kvótakerfinu, takmarkanir á eignasamþjöppun og krosseignatengslum, þröngar skorður við framsalsbraski, og sterkar umhverfisvænar byggðatengingar. Ef vel ætti að vera yrði þjóðin spurð um afdráttarlausa valkosti.