EKKI Í MÍNU NAFNI
Fyrsta símtalið sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir átti út fyrir landsteinana eftir að hún tók sæti í nýrri ríkisstjórn sem utanríkisráðherra Íslands var við utanríkisráðherra Úkraínu og nú er hún komin til þess lands og viti menn, til þess að ræða hvernig styðja megi við bakið á Úkraínu til frekari stríðsátaka. Þetta kom fram í fjölmiðlum að morgni dags.
Síðdegis kom svo í ljós að utanríkisráðherrann, væntanlega fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar, hefði ákveðið að leggja 300 milljónir til úkraínskra vopnaframleiðenda.
https://www.visir.is/g/20252672190d/taepar-thrju-hundrud-milljonir-fara-donsku-leidina-i-ukrainu
Getur verið að ekki þurfi að ræða þetta í utanríkismálnefnd Alþingis?
Getur verið að enn sé meirihluti á Alþingi fyrir stuðningi af þessu tagi?
Getur verið að á Alþingi sé engar raddir að finna, þó ekki væri nema eina, sem andmælti?
Ef ein rödd í þingsal andmælir þá á hún rétt á því að heyrast og þá eigum við sem erum utan veggja þingsins rétt á að heyra hana.
Tvískinnungur íslenskra stjórnvalda er nær óbærilegur. Andmæli við þjóðarmorðið á Gaza eru öll aðeins til málamynda. Þorgerður Katrín hefði ekki þurft annað en að setjast upp í ráðherrabílinn og halda til fundar við sendiherra Bandaríkjamanna til að mótmæla milliliðalaust og opinberlega nýjum vopnasendingum þeirra til Ísraels.
Síðan eru það öll hin stríðin, í Súdan, Jemen, Sýrlandi, Líbanon, Líbíu, Kúrdistan … sem öll eru meira og minna runnin undan rifjum Bandaríkjanna og annarra NATÓ ríkja. Sums staðar hefur þeim tekist að skipta út óvinveittum ríkisstjórnum og fá sér handgengnar í staðinn. Annars staðar hafa ríkin einfaldlega verið lögð í rúst og þar með gerð skaðlaus vestrænum auðlinda- og hernaðarhagsmunum.
Ný ríkisstjórn Íslands segist vilja spara fé okkar skattgreiðenda en gerir það síðan að sínu fyrsta verki að senda ráðherra austur í álfu til að styrkja þar hergagnaiðnað.
Eitt ætla ég að leyfa mér að segja um þessi kaup: Þau eru ekki í mínu nafni.
-------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.