Fara í efni

Ekki í mínu nafni heldur

Það var mér sannarlega áfall að utanríkisráðherra splunkunýrrar ríkisstjórnar léti það verða sitt fyrsta verk að fara í hjólför Bjarna og fyrri stjórnar. Drífa sig til Úkrainu með stríðshvatningu studda af 300 milljón króna peningagjöf til vopnakaupa. Þó aðeins minna en Bjarni gaf í Osló ef ég man rétt.

Það er eins og öfugmælavísa að kalla eftir hugmyndum þjóðarinnar um sparnað en senda svo utanríkisráðherrann nánast áður en blekið er þornað á stjórnarsáttmálanum úr landi með hvatningu og fjárhagsstuðning við stríðarekstur. Það er enn verið að safna sparnaðartillögum. Hér er ein. Ráðherrann hefði getað hitt Zelensky á zoom fundi og millifært 300 milljónirnar gegnum bankakerfið. Mér finnst eins og verið sé að gera grin að þjóðinni sem í einlægni er að diska upp með sparnaðartillögur. Hvað ætlar stjórnin sér að gera með milljarðana sem búið er að lofa í stríðsrekstur á næstu árum. Verður hægt að draga eitthvað til baka þar með sparnað í huga.

Hefjumst handa við að leiða saman nágrannaþjóðir okkar til að vinna að friði. Það voru við, mennirnir, sem fundum upp stríð. Það ætti ekki að vera ofvaxið getu okkar að finna upp frið og prófa frið í einhvern tíma. Reynist friður mannkyninu verri kostur en stríð þá má alltaf snúa sér aftur að stríði.

Böðvar Jónsson