Ekki í okkar nafni
Ræða flutt á útifundi á Lækjartorgi 20. mars.
Í ræðunni sem útvarpað var um heim allan á mánudag sagði George Bush Bandaríkjaforseti að ríkisstjórn sín væri friðsöm. En hún myndi aldrei láta beita sig ofbeldi; hún myndi aldrei láta hafa í hótunum við sig; aldrei láta stilla sér upp við vegg. En - Ef Saddam og synir verða ekki farnir úr landi innan 48 stunda, bætti Bandaríkjaforseti við, þá munum við ráðast á Írak. Og enginn skal velkjast í vafa um að okkur er alvara og að til þess höfum við mátt.
Það er rétt hjá George Bush Bandaríkjaforseta að hans er mátturinn. Hernaðarlegir yfirburðir þeirra félaga, Bush og Blairs, sem fylgir honum að málum eins örugglega og rófa fylgir hundi – yfirburðir Bandaríkjanna og Breta yfir þriðja heims ríkinu Írak eru yfirþyrmandi.
400 milljarðar dollara í hernaðarútgjöld Bandaríkjanna á síðasta ári skrifar Krugman í New York Times í gær á móti brotabroti hjá Írökum. Og er þá ekki öll sagan sögð því íraska þjóðfélagið er lamað eftir viðskiptabann í áratug – stoðkerfi samfélagsins í sundur – skólp, rafmagn, vegir, fjarskipti, allt í lamasessi, skortur á lyfjum, krabbameinshvítblæði á þeim svæðum sem Bandaríkjamenn sprengdu árið ´91.
En segir það ekki sína sögu um andvaraleysi heimsins að í gærkvöldi, áður en stórárásin hófst hrukku þjóðir heimsins við – og fréttarásirnar voru opnaðar fyrir beinar útsendingar – því fregnir höfðu borist að loftárásir væru hafnar. En því höfðu menn gleymt, eða ekki vitað, að í 12 ár – í 12 löng ár hafa Bretar og Bandaríkjamenn haldið uppi loftárásum á Írak í hverri einustu viku frá byrjun árs til loka þess – allt til að lama þjóðina og draga úr mætti hennar.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var látið samþykkja árið 1991 kröfu á hendur Írökum að afvopnast. Ég segi var látið samþykkja – stórfelldum þvingunum og mútum var beitt af hálfu Bandaríkjanna til að fá þessum vilja sínum framgengt og nú erum við að sjá - fyrir opnum tjöldum -hið sama gerast gagnvart Tyrkjum , Jórdaníu – oftast er mannorðið falt – en ekki alltaf – það er þakkarvert að Frakkar og fleiri þjóðir skuli hafa staðið gegn Bandaríkjamönnum í Öryggisráðinu, þótt þeir sem aðrir hafi skrifað upp á kröfuna um afvopnun Íraks.
Menn segja: Saddam Hussein er illur og hættulegur. Svo kann að vera. En hvað má segja um þá sem komu honum til valda og öttu honum út í stríð við Írana sem kostaði milljón mannslíf? Hvað má segja um þá sem sáu honum fyrir vopnunum til að deyða og drepa, efnavopnum og sýklavopnum.
Donald Rumsfeld núverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, þáverandi stjórnarerindreki afhenti Saddam Hussein efnavopn árið 1983 ekki til að hann geymdi þau heldur til að hann notaði þau gegn meintum óvinum Bandaríkjastjórnar.
En hann verður að afvopnast – hann verður að afvopnast –hver eftir annan hefur étið þetta upp eftir stríðhaukunum í Washington. Og tíminn rennur út – hann er að renna út bergmála þeir Davíð og Halldór; sauðtryggir bandamenn Bush, sljóir og skilningsvana til augnanna stimpla þeir allt í bak og fyrir. Og þegar hafist er handa um afvopnun – þá er því lýst yfir, blákalt og blygðunarlaust, að þegar Saddam Hussein verði þorrinn mátturinn þá verði ráðist á Íraka - varnarlausa. Þetta hljómar sem ýkjur en eru staðreyndir. Þegar Írakar byrjuðu að skrúfa flaugar sínar sundur var einmitt þessu lýst yfir.
En hvers vegna afvopna Írak – hvers vegna ekki Indland og Pakistan sem hafa kjarnorkuvopn og hóta að beita þeim, eða Bandaríkjamenn sjálfa sem hafa kjarnorkuvopn, hóta að beita þeim og hafa beitt þeim? Það er aðeins gagnvart Írak sem krafan er reist, þjóð sem ekki ræður yfir gjöreyðingarvopnum, það er gagnvart henni sem þessa er krafist í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna – þessari arfleifð nýlendutímans – þar sem Bandaríkjastjórn hefur 70 sinnum beitt neitunarvaldi og frá 1990 oftar en nokkur önnur þjóð, yfirleitt til að koma í veg fyrir að Ísrael fái ávítur vegna mannréttindabrota á Palestínumönnum.
En ég spyr er ekki kominn tími til að hlusta á fólkið í heiminum – þann yfirgnæfandi meirihluta mannkyns sem hrópar einum rómi gegn stríði og ofbeldi? Er ekki kominn tími til að gefa því gaum að afgerandi meirihluti ríkja Sameinuðu Þjóðanna er á bandi almannaviljans og talar máli friðar?
Það erum við sem viljum styrkja Sameinuðu þjóðirnar, svo þær geti með lýðræðislegum hætti og af siðferðilegum styrk leyst úr vandamálum þjóðanna.
En Ísland – okkar góða land og við sem landið byggjum – hvernig er með okkur farið?
Það er dapurlegt að fylgjast með ráðamönnum þjóðarinnar forsætisráðherranum og utanríkisráðherranum – báðir móðir af undirgefni – lágt lútandi - knékrjúpandi frammi fyrir valdsmönnum í Washington. Þeir hafa boðið þeim land okkar til ráðstöfunar – árásáröflunum, án þess að bera það upp við þing og þjóð.
Og þeir hafa gert okkur samsek – gegn vilja okkar; að okkur forspurðum hafa þeir gert okkur að hluta af árásarliðinu – og ég segi, George Bush ætti að fara varlega í að skilgreina stríðsglæpamenn - þeir gætu reynst nær honum en hann ætlar.
Og eitt skulu menn vita, að á Írak er ekki ráðist í okkar nafni.
Í okkar nafni sækja Bandaríkjamenn ekki olíu.
Í okkar nafni reka þeir ekki heimsvaldastefnu sína.
Í okkar nafni fremja þeir ekki stríðsglæpi.
Í okkar nafni ráðast þeir ekki á Írak.
Ekki í okkar nafni.
Ekki í okkar nafni.