Fara í efni

EKKI MÁLEFNI HELDUR PARTÝHALD TEFUR VIÐRÆÐUR

Tvennt vekur athygli í fréttum af stjórnarmyndunar- viðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í fyrsta lagi hinir miklu kærleikar sem tekist hafa með formönnum flokkanna og birtast þjóðinni í innilegum kossum í tíma og ótíma. Hitt atriðið er það að hermt er að viðræður gangi vel því lítill sem enginn málefnaágreiningur sé milli flokkanna. (Skyldi nokkur vera búinn að gleyma turnatalinu?)
En einmitt vegna þessa mikla samlyndis brá ýmsum í brún þegar tilkynnt var upp úr klukkan fjögur í dag að ekki yrði fundað meira í dag. Var þá komin uppstytta í viðræðurnar? Höfðu menn fundið eitthvert ágreiningsatriði? Gat verið að Samfylkingin ætlaði að standa í fæturnar í einhverjum málaflokki?
Ekki reyndist svo vera því nú hafa þau Geir og Ingibjörg upplýst að fundi var ekki frestað vegna málefna: " Þau sögðu aðspurð, að hléið væri ekki gert vegna einhverra sérstakra ágreiningsmála heldur hentaði það þeim að gera þetta svona." Þetta kom fram á mbl.is. Í sömu frétt kom fram skýrinigin á fundafallinu: "Þingflokkur Samfylkingar mun hittast í kvöld til að kveðja þá þingmenn, sem hverfa nú af þingi."

Ég er sannfærður um að þjóðin hefur fullan skilning á því að Ingibjörg og Össur þurfi að fá tíma til að fara heim í sturtu og snurfusa sig fyrir þingflokkspartýið í kvöld.
Hinu velti ég aftur fyrir mér hvað þingflokkum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks finnist um vinnubrögð formanna sinna.  Mbl.is: "Ingibjörg Sólrún sagði, að þau væru ákveðin í að lenda þessu máli en þau þyrftu ekki að flýta sér um of. Geir sagði aðspurður, að ekki væri komið að því að kalla saman flokksstjórnir eða þingflokka. Þegar þau voru spurð hvort byrjað væri að skipta ráðuneytum milli flokkanna sagði Geir að öll mál væru afgreidd í einum pakka."

Fyrst lendir þröng klíka pakkanum. Síðan eru boðaðir fundir í þingflokkum og stjórnum. Þar verður sagt take it or leave ittakið þessu eða etið það sem úti frýs! Er þetta það sem koma skal? Eru þetta hin margrómuðu umræðustjórnmál, sem ISG hefur nefnt svo? Verður stjórnarsamstarfið með þessum hætti? Þetta voru vinnubrögð þeirra Davíðs og Halldórs. Þau gáfu ágæta raun. Að öðru leyti en því að með þessu var lýðræðið úr sögunni– og síðan Framsóknarflokkurinn líka. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er vanur því að ganga svipugöngin. Samfylkingin sýnist mér ætli einnig að verða flokksræðinu auðveld viðfangs að þessu leyti. Minnug ummæla ISG um meintan ótrúverðugleika þingflokks Samfylkingarinnar er ekki úr vegi að spyrja hvort það sé þetta sem þurfti til að gera þingflokkinn trúverðugan og traustsins verðan – að éta molana úr hendi formanns síns? Aumt hlutskipti þætti mér það vera og aumkunarvert.