Fara í efni

EKKI SJÁLFSTÆÐIS-FLOKKINN AFTUR!

Ég vil óska þér til hamingju með að hafa tekið forystu fyrir hinum órólegri og reynsluminni armi þingflokks VG. Mér sýnist þér hafa tekist að tryggja líf ríkisstjórnarinna sem virtist hanga á bláþræði sérstaklega í vor. Það er ljóst að VG og Samfylkinging verða að veita forystu á tímum þegar Sjálfstæðisflokkurinn minnir mest á "Höfuðlausa riddarann" eftir Calvino. Að setja Davíð á ritstjórastólinn sýnir hvers væri að vænta ef flokkurinn kæmi aftur til valda núna. Nei þið verðið að hreinsa flórinn eftir langt tímabil frjálshyggjustjórnar og reyna að auka virðingu fyrir stjórnmálum og stjórnmálamönnum með því að sýna áframhaldandi ábyrgð. Með vinsemd og virðingu,
Eiríkur Guðjónsson

Þakka þér bréfið Eiríkur. Ekki er það rétt að þingflokkur VG skiptist í "órólega og reynslulitla" annars vegar og þá væntanlega hina rólegu og reynslumiklu hins vegar. Það er vissulega rétt að ágreiningur hefur verið í sumar um vinnubrögð í tengslum við Icesave "samninginn". Sá ágreiningur er málefnalegur og byggir ekki á reynslu fólks eða reynsluleysi. Ég er þér sammála um að taka þarf til í þjóðfélaginu og skiptir miklu máli hverning við berum okkur að við það.
Með kveðju,
Ögmundur