EKKI STEFNA AÐ SELJA LEIFSSTÖÐ “AÐ SVO STÖDDU” EN …
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir viðrar drauma sína á forsíðu Morgunblaðsins um nýliðna helgi. Draumar sínir séu enn sem komið er ekki orðin stefna ríkisstjórnarinnar, “að svo stöddu” séu þetta hennar skoðanir.
Reynslan kennir að pólitískir draumar þessa ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eru martröð annarra. Við minnumst orkupakkaumræðunnar. Þar sagði ráðherrann það sem ekki mátti segja en var engu að síður sannleikurinn um markaðs- og einkavæðingu orkunnar.
Vegferðin með orkuna hófst fyrir rúmum tveimur áratugum suður í Brussel. Þá var ákveðið að sundurbúta raforkuframleiðsluna og söluna þannig að aðlaga mætti einstaka hluta starfseminnar lögmálum markaðarins og á endanum gera þá söluvæna og þá einnig áhugaverða fyrir fjárfesta.
Í haust hóf stjórn ISAVIA þessa vegferð með flugvellina okkar. ISAVIA var eitt félag fyrir Leifsstöð, innlendu flugvellina og flugumsjónina. Síðastliðið haust var ákveðið að aðgreina þessa rekstrarþætti og Bingó! Nú er hægt að selja Leifsstöð óháð annarri strafsemi sem ekki er eins fýsileg fyrir fjárfesta.
Um þessa undirbúningsvinnu skrfiaði ég nokkuð í haust, m.a. hér:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/isavia-er-enginn-i-markinu
https://www.ogmundur.is/is/greinar/radum-reikningskennara-ur-hagaskola
Þórdís ráðherra fer varlega að þjóð sinni við kynningu á draumförum sínum samkvæmt Morgunblaðinu: “Hennar skoðun sé sú að styrkja mætti stöðu Keflavíkurflugvallar með því að fá einkafjárfesta sem hefðu reynslu af rekstri … Það sé (þó) ekki hluti af stefnu stjórnvalda að svo stöddu.”
En nú leyfi ég mér að spyrja: Þegar búið verður að margtæma ríkissjóð við að verja eignarhald stórfyrirtækjanna og þörf á bráðaaðgerðum til bjargar heilbrigðiskerfinu, má þá ekki búast við þeirri “frábæru” tillögu frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að nú sé lag að selja Leifsstöð og slá þannig tvær flugur í einu höggi, ná í pening í tóman ríkissjóð og síðan “þekkingu” frá bröskurunum; “þekkingin” er skiljanlega aldrei skilgreind, hún er eitthvað dulúðugt og alveg æðislegt – eða þannig.
Þetta kom mér í hug þegar ég setti saman í einfalt samlagningardæmi:
annars vegar
a) þá ákvörðun stjórnar ISAVIA sl. haust (aðeins fulltrúi Framsóknar var með efasemdir samkvæmt fréttum) að gera ISAVIA söluvænt.
og hins vegar
b) vangaveltur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á forsíðu Morgunblaðsins sl. laugardag um “að styrkja mætti stöðu Keflavíkurflugvallar með því að fá einkafjárfesta sem hefðu reynslu af rekstri alþjóðaflugvalla erlendis sem minnihlutaeigendur að vellinum. Hún tekur þó fram að það sé ekki hluti af stefnu stjórnvalda að svo stöddu.”
“… að svo stöddu” … en svo þegar búið er að leggja saman reikningsdæmið er kominn nýr dagur.